Nýr ráðherra í heimsókn
Nýr umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, heimsótti Veðurstofu Íslands fimmtudaginn 8. janúar. Hún tók við lyklum að ráðuneytinu úr höndum Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fyrsta virka dag ársins. Aðstoðarmaður hennar er Ingveldur Sæmundsdóttir en sú var áður aðstoðarmaður Sigurðar Inga.
Sigrún á að baki farsælan feril í stjórnmálum auk þess að búa að víðtækri reynslu úr atvinnulífinu. Sigrún hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir ríki og borg og sat í borgarstjórn Reykjavíkur í 16 ár, m.a. sem formaður borgarráðs í 6 ár og formaður borgarstjórnarhóps Reykjavíkurlistans frá 1994 til 2002. Hún hefur setið í stjórnum margra fyrirtækja og stofnana borgarinnar og leitt mikilvæg verkefni, t.d. á sviði mennta- og fræðslumála. Sigrún var kjörin á þing vorið 2013 og hefur setið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og verið formaður Þingvallanefndar auk þess að gegna embætti þingflokksformanns.