Tíðarfar í desember 2014
Stutt yfirlit
Mánuðurinn var kaldur suðvestanlands en hiti var yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 í öðrum landshlutum, en undir meðallagi síðustu tíu ára um land allt. Nokkuð umhleypinga- og illviðrasamt var í veðri og úrkoma víðast yfir meðallagi. Snjór var meiri en að jafnaði í desember.
Landsmeðalhiti í byggð var undir frostmarki lengst af en síðustu dagar ársins voru hlýir. Norðlægar áttir voru algengari heldur en suðlægar í mánuðinum.
Hiti
Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík var -0,7°C sem er -0,5 gráðum kaldara en meðaltal áranna 1961-1990 og -1,4 gráðum kaldara en meðaltal síðustu 10 ára. Á Akureyri var mánaðarmeðalhitinn -1,4 stig, sem er 0,5 stigum yfir meðalhitanum 1961-1990 en -0,7 stigum undir meðalhita í desember síðustu 10 árin.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | meðalhiti °C | vik 1961-1990 | röð | af | vik 2004 til 2013 |
Reykjavík | -0,7 | -0,5 | 94 til 95 | 144 | -1,4 |
Stykkishólmur | -0,4 | 0,4 | 83 | 169 | -0,8 |
Bolungarvík | -0,5 | 0,4 | 58 | 117 | -0,6 |
Grímsey | 0,4 | 1,3 | 42 | 140 | -0,4 |
Akureyri | -1,4 | 0,5 | 69 | 133 | -0,7 |
Egilsstaðir | -1,5 | 0,7 | 28 | 60 | -0,2 |
Dalatangi | 1,4 | 0,8 | 36 | 76 | -0,5 |
Teigarhorn | 0,4 | 0,5 | 72 | 142 | -0,6 |
Höfn í Hornaf. | 0,7 | 0,3 | 0,0 | ||
Stórhöfði | 0,9 | -0,6 | 93 | 138 | -1,1 |
Hveravellir | vantar | ||||
Árnes | -3,1 | -1,4 | 108 | 134 | -2,3 |
Að tiltölu var langkaldast í uppsveitum á Suðurlandi, en hlýjast norðaustan- og austanlands.
Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 2,2 stig, en lægstur í Sandbúðum, -7,7 stig. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Svartárkoti og í Möðrudal, -4,6 stig.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 16,0 á Skjaldþingsstöðum þann 29. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á sama stað og sama dag, 15,2 °C. Lægsti hiti á landinu mældist -20,7 stig á Brúarjökli þann 12. Lægsti hiti í byggð mældist -19,8 stig í Möðrudal þann 24. og 25. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist -17,7 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 12. og 13.
Hámarkshitinn á Skjaldþingsstöðum þ. 29. er nýtt landsdægurmet og raunar hæsti hiti sem mælst hefur á landinu milli jóla og nýárs. Aflesturinn á kvikasilfursmælinn á Skjaldþingsstöðum morguninn eftir, 14,5 stig, er einnig nýtt dægurmet fyrir þann dag, þann 30.
Úrkoma
Úrkomusamt var um mestallt land. Að tiltölu var úrkoman einna mest um miðbik Norðurlands.
Úrkoma í Reykjavík mældist 110,0 mm og er það um 40 prósent umfram meðallag. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 129,6 mm og er það um 80 prósent umfram meðallagið. Á Akureyri mældist úrkoman 158,1 mm og er það um þreföld meðalúrkoma í desember, jafnmikil eða meiri úrkoma hefur ekki mælst á Akureyri í desember síðan samfelldar mælingar hófust þar 1928. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 201,7 mm.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 17 í Reykjavík og er það 3 fleiri en í meðalári, á Akureyri voru slíkir dagar 19, 8 fleiri en að meðallagi.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 9,3 og er það 3 klst. minna en í meðalári. Á Akureyri mældist ekkert sólskin í mánuðinum eins og algengast er í desember.
Snjólag
Alhvítir dagar í Reykjavík voru 25. Að meðaltali 1971 til 2000 var alhvítt 13 daga í desember. Árið 2011 voru 29 alhvítir dagar í desember, og árið 1936 (þegar reyndar var snjólétt) voru þeir jafnmargir og nú. Annars hafa alhvítir dagar alltaf verið færri í mánuðinum. Alhvítt var 28 daga á Akureyri, það er 6 dögum meira en í meðaldesember.
Samgöngur riðluðust nokkuð í hríðarveðrum í mánuðinum, m.a. í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu þann 16. Í hlákunni milli jóla og nýárs var víða mjög hált.
Vindhraði og loftþrýstingur
Vindátt var mjög á reiki, norðlægar áttir þó meira ríkjandi en suðlægar. Vindhraði var um 0,8 m/s yfir meðallagi á landinu í heild.
Nokkuð illviðrasamt var í mánuðinum, mest kvað að veðrunum þ. 1. (af suðvestri), 9. til 11. (af suðaustri en síðan norðri) og 14. (einnig af norðri).
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 993,7 hPa og er það -7,2 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Lægstur mældist þrýstingurinn á Gufuskálum þann 9., 948,1 hPa en hæstur 1031,4 hPa í Bolungarvík og Önundarhorni þann 27.
Skjöl fyrir desember
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í desember 2014 (textaskjal).
Þessa grein er einnig hægt að lesa sem pdf-skjal, Tíðarfar í desember 2014 (0,4 Mb)