Tíðarfar ársins 2014 - stutt
Bráðabirgðayfirlit 30. desember
Árið 2014 einkenndist af miklum hlýindum en víða var mjög úrkomusamt og sumarið sólarrýrt.
Sérlega hlýtt
Óvenjuhlýtt var á landinu öllu. Við norðurströndina og víða austanlands er árið það hlýjasta frá upphafi mælinga, þar á meðal bæði í Grímsey og á Teigarhorni þar sem mælt hefur verið samfellt að kalla frá 1874 og 1872. Í flestum öðrum landshlutum var það næsthlýjasta eða þriðjahlýjasta ár sem þekkt er. Kaldast að tiltölu var það á Vestfjörðum þar sem það verður nálægt því að verða hið 5. hlýjasta. Sumarið var óvenjuhlýtt, sérstaklega á landinu norðaustanverðu þar sem það var sums staðar það hlýjasta frá upphafi mælinga.
Þrátt fyrir hlýindin þótti tíðarfar nokkuð blendið. Fyrstu mánuðir ársins voru sérlega úrkomusamir um landið austan- og norðaustanvert og var tíð þar þá erfið á köflum. Vestanlands var á sama tíma þurrt og hagstætt tíðarfar lengst af. Sumarið var hlýtt og hagstætt norðanlands og austan, en lengst af votviðrasamt og sólarlítið syðra. Haustið var hagstætt en árið endaði með umhleypingasömum og fremur köldum desember.
Hæsti hiti ársins mældist 23,3 stig á Húsavík þann 23. júlí. Hámarkshiti ársins á landinu öllu hefur ekki verið jafnlágur síðan 2001. Hæsti hiti ársins á mannaðri veðurstöð mældist 22,6 stig á Skjaldþingsstöðum þann 14. september.
Lægsti hiti ársins mældist -28,9 stig í Svartárkoti þann 19. febrúar. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist -21,6 á Grímsstöðum á Fjöllum þann 18. mars.
Úrkoma
Úrkoma var yfir meðallagi um mestallt land. Í Reykjavík var hún um 20 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi var hún í rétt tæpu meðallagi en sérlega mikil norðaustan- og austanlands, mældist 50 prósent umfram meðallag á Akureyri og virðist árið verða það úrkomumesta þar frá upphafi mælinga, 1928 (úrkoman var þó aðeins fáum mm minni árið 1989). Á Dalatanga var úrkoman sömuleiðis nærri 50 prósent umfram meðallag og sú næstmesta frá upphafi mælinga þar, 1938. Meiri úrkoma mældist á Dalatanga árið 1950 og árið 2011 var úrkoman nærri því eins mikil og nú.
Sólskinsstundir
Sólskinsstundir mældust færri en verið hefur undanfarin ár, bæði í Reykjavik og á Akureyri. Voru sólskinsstundirnar um 100 færri en að meðallagi 1961 til 1990 á báðum stöðum og rúmlega 200 færri en að meðaltali síðustu 10 árin. Í Reykjavík hafa sólskinsstundirnar ekki mælst jafnfáar síðan 1993 – en þá voru þær nánast jafnmargar og nú – en mun færri 1992. Á Akureyri er sólarleysið það mesta síðan 2002, en langt frá meti eins og í Reykjavík.
Stutt upprifjun á einstökum mánuðum:
Janúar var nokkuð vindasamur, úrkoma mikil austanlands en um landið vestan- og norðvestanvert var tíð í þurrara lagi. Mánuðurinn var óvenjuhlýr, sérstaklega um landið austanvert þar sem hann var sums staðar sá næsthlýjasti frá upphafi mælinga
Óvenjueindregin austan- og norðaustanátt var ríkjandi í febrúar. Sérlega þurrt var um landið vestanvert, allt norður fyrir Breiðafjörð, og sömuleiðis inn til landsins á Norðurlandi vestanverðu. Á þessu svæði var febrúar hinn þurrasti um áratugaskeið. Úrkoma var hins vegar með mesta móti nyrst á Vestfjörðum og á Norðaustur- og Austurlandi. Hlýtt var í veðri og þótti tíð suðvestanlands góð en víða var þó kvartað undan næðingum og þrálátum svellum á jörð. Gæftir þóttu ekki góðar. Óvenjumikill snjór var víða til fjalla á Vestfjörðum norðanverðum og á Norðaustur- og Austurlandi og truflaði þar samgöngur. Við sjávarsíðuna var hins vegar snjólétt. Óvenjusnjólétt var vestan- og suðvestanlands.
Mars var umhleypinga- og úrkomusamur um meginhluta landsins, sérstaklega þó norðaustan- og austanlands þar sem einnig var töluverður snjór, og mikill inn til landins. Snjórinn olli samgöngutruflunum á þeim slóðum. Snjólétt var vestanlands og sunnan og samgöngur greiðar. Lengst af var hlýtt í veðri, sérstaklega austanlands
Aprílmánuður var hlýr og telst hagstæður víðast hvar. Lengst af var þurrt í veðri norðaustanlands en á Austfjörðum var úrkoma nokkuð yfir meðallagi. Í öðrum landshlutum var úrkoma í kringum meðallag eða lítillega undir því.
Tíðarfar í maí var hagstætt á landinu og vorgróður tók vel við sér. Hiti var vel ofan við meðallag víðast hvar. Úrkoma var yfir meðallagi á Suður- og Austurlandi en í því eða undir víða um norðvestan- og norðanvert landið.
Júnímánuður var sérlega hlýr á landinu, einhver sá hlýjasti sem komið hefur síðan mælingar hófust. Víðast hvar um suðvestanvert landið – og víða vestan- og sunnanlands – var hann einnig í hópi úrkomusömustu júnímánaða sem vitað er um. Mat á tíðarfari var því nokkuð misjafnt.
Júlímánuður var mjög votviðrasamur um mestallt land. Sértstaklega lítið var um þurrka um landið vestan- og sunnanvert og þar var einnig sólarlítið. Kalt var í byrjun mánaðarins og einnig voru tveir síðustu dagarnir kaldir. Að öðru leyti var hlýtt um land allt, hlýjast að tiltölu við norðurströndina sem og á mestöllu Norðaustur- og Austurlandi.
Tíðarfar í ágúst var hagstætt víðast hvar. Lengst af var hlýtt á landinu nema fyrstu dagana. Úrkoma var lengst af talsvert minni en að meðallagi um mestallt land, en þó um eða yfir því austan til á landinu.
Tíðarfar í september var óvenjuhlýtt, hlýjast að tiltölu norðan- og austanlands. Á Dalatanga er þetta hlýjasti september frá upphafi mælinga 1938 og sá þriðji hlýjasti í Grímsey en þar hefur verið mælt frá 1874. Svalast að tiltölu var á Suðvesturlandi þar sem hiti var þó yfir meðallagi síðustu tíu ára. Óvenjuúrkomusamt var um allt sunnan- og vestanvert landið en fremur þurrt á Norðausturlandi.
Í október voru austlægar og norðlægar áttir ríkjandi en veðurlag var lengst af meinlítið. Fremur kalt var að tiltölu í mánuðinum miðað við flesta aðra mánuði ársins. Úrkoma var í meira lagi víða austan- og suðaustanlands en var nærri meðallagi annars staðar. Þó var hún talsvert undir því á stöku stað um landið vestanvert.
Austlægar áttir voru ríkjandi lengst af í nóvember. Kuldakast gerði í fáeina daga í kringum þann 10., en annars var óvenjuhlýtt á landinu öllu og mánuðurinn meðal hlýjustu nóvembermánaða frá upphafi mælinga. Úrkoma var í meðallagi eða undir því víða um vestanvert landið en suðaustan- og austanlands var úrkomumikið.
Tíðarfar í desember var rysjótt um mestallt land. Kalt var í veðri, kaldasti mánuður ársins að tiltölu. Talsverður snjór var á jörðu.