Fréttir

FutureVolc verkefnið kynnt á vef National Geographic

Eldsumbrotin undirstrika mikilvægi alþjóðlegs verkefnis

21.10.2014

Fyrir viku síðan birti National Geographic frétt á vefsíðu sinni um eldgosið á Íslandi og kynnti alþjóðlega FutureVolc verkefnið um leið, sem leitt er af íslenskum vísindamönnum.

Samsett myndskeið sýnir bæði gosstöðvarnar og vinnu sérfræðinga á vettvangi. Viðtöl eru við Freystein Sigmundsson (Jarðvísindastofnun), sem kynnti markmið og umfang FutureVolc og sérstöðu Íslands, og við Kristínu Vogfjörð (Veðurstofunni) sem sagði frá nýrri áherslu á opin gögn og sýndi dæmi af vedur.is, bæði keyrslu á láréttum færslum kringum megineldstöðina og gagnvirkt þrívíddarlíkan af jarðskjálftunum.

Fram kom að Ísland væri nánast eins og rannsóknarstofa náttúrunnar í eldfjallafræði; hér væru margar gerðir eldfjalla í misjöfnum jarðfræðilegum og landfræðilegum kringumstæðum og að gos undir jökli, sem fyrirfinnast varla annarsstaðar, útheimtu rýmingar vegna flóða þar sem hálftíma fyrirvari gæti skipt sköpum. Einmitt vegna þessarar sérstöðu hefði Ísland verið valið sem miðstöð FutureVolc verkefnisins en það hefur ákveðinn tímaramma og líkur voru taldar á því að eldgos brytist út meðan á verkefninu stendur. Og það er einmitt það sem gerðist.

Lýst er mikilvægi þess að koma upplýsingum sem fyrst á framfæri; viðvörunum til almennings þegar viðburðir verða en einnig rannsóknaniðurstöðum til samfélagsins svo þekking eflist og undirbúa megi betri viðbrögð. Vegna nýrra mælitækja, m.a. frá FutureVolc, sé þetta eldgos eitt af best vöktuðu eldgosum sögunnar. Að auki varpi niðurstöðurnar ljósi á það hvernig hafsbotninn verður til, því á Íslandi sé gliðnun á plötuskilum, rétt eins og á rekhryggjum úthafanna.

Til að gefa hugmynd um um stærð hraunsins stendur í fréttinni að það gæti fyllt Empire State bygginguna í New York 740 sinnum og að hraunflæðið samsvari því að alþjóðlegur keppnisvöllur í fótbolta hafi verið þakinn á 5,5 mínútna fresti. Fari svo fram sem horfir, verði hraunið brátt stærra en nokkuð annað hraun á þessari eyju í 200 ár og engin merki séu um að eldgosið sé að dvína. Ómögulegt sé að segja til um hvenær eldsumbrotunum ljúki, það geti tekið mánuði og hugsanlega einhver ár.

Í fréttinni eru tenglar á aðrar fréttir National Geographic um Bárðarbungu, Holuhraun og Eyjafjallajökul og á grein með spurningar og svör um eldfjöll á Íslandi.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica