Fréttir

Viðvörun - fyrsta afgerandi snjókoma haustsins

19.10.2014

Veðurstofan vill vekja athygli á því, að fyrsta alvöru snjókoma haustsins á norðanverðu landinu er í vændum á morgun.

Það hvessir fyrst á Vestfjörðum, nú aðfaranótt mánudags, og fer að snjóa þar. Um hádegi á mánudag má búast við norðan hvassviðri eða stormi (15-23 m/s). Snjókoma verður á Vestfjarðakjálkanum og austur með norðanverðu landinu allt að Melrakkasléttu. Búast má við að dálítil snjókoma slæðist suður á Faxaflóasvæðið. Mun hægari vindur verður sunnan- og austanlands en hvessir einnig þar seinnipart dagsins.

Á mánudagskvöldið er útlit fyrir norðan og norðvestan hvassviðri eða storm (15-23 m/s) víða um land. Þá má búast við samfelldri snjókomu um allt norðanvert landið en stöku smáéljum sunnanlands. Hiti verður kominn undir frostmark um mestallt land. 

Á þriðjudag er útlit fyrir allhvassa eða hvassa norðvestanátt en storm norðaustan- og austanlands. Úrkomulítið verður á Vestfjörðum en annars má búast við snjókomu frá Húnaflóa austur á Austurland. Vind lægir á vestanverðu landinu seinnipart dagsins þegar umrædd lægð fer að grynnast og fjarlægjast landið. Frost á þriðjudeginum verður víða á bilinu 0 til 4 stig.

Ferðalög milli landshluta geta orðið erfið á mánudag og þriðjudag, einkum á norðurhelmingi landsins. Þetta á sérílagi við bíla sem eru vanbúnir til vetraraksturs.

Þessi tilkynning er gerð sunnudaginn 19. október 2014 kl. 11:30 og unnin með aðstoð tölvuspáa með greiningartíma kl. 06 á sunnudag.

Vakthafandi veðurfræðingar:
Teitur Arason og Óli Þór Árnason




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica