Fréttir
Rofbakki við ströndina, 4–6 m hár.

Um berghlaupið í Öskju

Minnisblað um frumniðurstöður rannsókna

6.8.2014

Berghlaupið, sem féll að kvöldi 21. júlí 2014 úr Suðurbotnum í Öskju niður í Öskjuvatn, er eitt stærsta berghlaup á sögulegum tíma á Íslandi.

Hlaupið kom af stað flóðbylgju sem skolaðist upp á bakkana í kringum vatnið og gekk inn á flatlendið suðaustan við Víti. Svo heppilega vildi til að hlaupið varð síðla kvölds og enginn var nærri vatninu en annars hefði getað farið illa. Aðeins nokkrum klst. áður voru tugir ferðamanna niðri á vatnsbakkanum við Víti sem hefðu átt erfitt með að komast undan flóðbylgjunni.

Enginn sjónarvottur varð að hlaupinu en björgunarsveitarmenn hjá Hálendisvakt Landsbjargar sáu  gufubólstra sem stigu upp við það að hlaupið afhjúpaði jarðhita sem áður var grunnt undir yfirborði jarðar á upptakasvæðinu. Einnig kann ryk, sem þyrlaðist upp við berghlaupið, að hafa komið við sögu.

Öskjuvatn myndaðist á um þrjátíu árum eftir eldgos árið 1875 og því eru öskjubarmarnir við vatnið jarðfræðilega mjög ungt svæði. Slíkar hlíðar eru óstöðugari en hlíðar í eldra landslagi sem komist hafa í ákveðið jafnvægi. Það má því gera ráð fyrir því að fleiri berghlaup falli úr hlíðum Öskju á næstu árum, áratugum eða öldum. Af því leiðir að ákveðin hætta fylgir því að fara niður að Öskjuvatni.

Sá sem er staddur við vatnið og verður var við hrun ætti að forða sér án tafar í átt frá vatninu og upp í hlíð. Það tekur flóðbylgju um 1-2 mínútur að ferðast yfir vatnið og hljóðið um 10 sek að berast þannig að fólk fær einungis skamman tíma til að forða sér ef stórt hrun verður handan vatnsins. Það þarf stórt berghlaup til að valda flóðbylgju af svipaðri stærð og í júlí 2014 en minni skriður gætu engu að síður valdið minni flóðbylgju. Smávegis hrun veldur nánast engri flóðbylgju, þótt því geti fylgt hávaði.

Veðurstofan og Háskóli Íslands hafa nú sent frá sér sameiginlegt minnisblað sem birtir frumniðurstöður rannsókna á þessu stærsta berghlaupi á sögulegum tíma á Íslandi. Þetta minnisblað má lesa í sérstakri vefgrein þar sem er að finna fjölda mynda, korta og línurita með skýringartextum.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica