Fréttir
Jarðskjálfti á Suðurlandi

Jarðskjálfti austan Þjórsár 8. maí 2014

9.5.2014

Jarðskjálfti af stærð 4 varð klukkan 23:14 í gærkveldi (8. maí) um 10 km austsuðaustur af Hestfjalli, við Kaldárholt rétt austan við Þjórsá. Skjálftinn fannst víða um Suðurland og einnig bárust tilkynningar frá Hafnarfirði, Borgarnesi og Reykjavík.

Skjálftinn varð á sprungu sem hrökk 14. ágúst 1784 og orsakaði skjálfta sem var 7 að stærð.

Engir forskjálftar urðu á undan og örfáir eftirskjálftar mældust eftir skjálftann í gærkveldi. Þetta er stærsti skjálfti sem orðið hefur á þessum slóðum frá árinu 2000 og stærsti skjálfti á Suðurlandsundirlendinu frá árinu 2008.

Hugsanlega er um að ræða eftirskjálfta frá skjálftanum sem varð 17. júní 2000 þar sem losnaði ekki um alla spennu á þessu svæði á þeim tíma. Ekki er óhugsandi að annar skjálfti af svipaðri stærð (um fjögur stig) gæti orðið á þessum slóðum á næstunni.

Suðurlandsundirlendi er eitt virkasta jarðskjálftasvæði landsins og skjálftar þar geta náð stærð allt að 7. Skoða má áhrifakort nýliðins skjálfta.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica