Fréttir
Við Leirvog í góðviðri hinn 27. apríl 2014.

Tíðarfar í apríl 2014

Stutt yfirlit

2.5.2014

Aprílmánuður var hlýr og telst hagstæður víðast hvar. Lengst af var þurrt í veðri norðaustanlands og á Austfjörðum var úrkoma nokkuð yfir meðallagi. Í öðrum landshlutum var úrkoma í kringum meðallag eða lítillega undir því.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 4,9 stig og er það 2 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 3,6 stig, 2 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, en 0,8 yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik 30 röð af vik 10
Reykjavík 4,9 2,0 14 144 1,0
Stykkishólmur 3,6 1,9 21 169 0,7
Bolungarvík 2,3 1,5 41 til 43 117 0,5
Akureyri 3,6 2,0 19 133 0,8
Egilsstaðir 4,0 2,8 8 60 1,8
Dalatangi 3,4 2,0 28 til 29 76 1,0
Teigarhorn 4,5 2,3 10 til 11 142 1,4
Höfn í Hornafirði 5,4
Stórhöfði 5,0 1,6 17 138 0,4
Hveravellir  -0,8 2,6 6 50 1,2
Árnes 4,3 2,3 10 134 1,4

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Önundarhorni undir Eyjafjöllum, 5,9 stig, en lægstur á Gagnheiði -2,9 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -0,4 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 18,1 stig, í Skaftafelli þann 22. Á mannaðri stöð mældist hann hæstur 16,0 stig á Bergstöðum í Skagafirði þann 24. Lægsti hiti á landinu mældist við Setur þann 17., -14,8 stig. Í byggð varð hitinn lægstur -13,1 stig í Möðrudal þann 14. Á mannaðri stöð mældist hitinn lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum þann 2., -7,6 stig.

Úrkoma

Úrkoma var talsvert undir meðallagi á nokkrum stöðvum norðaustanlands, yfir því á Austfjörðum en annars ekki fjarri meðallagi eða lítillega undir því.

Í Reykjavík mældist úrkoman 55,8 mm og er það rétt undir meðallagi aprílmánaðar. Á Akureyri mældist úrkoman 16,2 mm. Það er um 56 prósent meðalúrkomu. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 49 mm og er það um sjö prósent undir meðallagi.

Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 13 daga í Reykjavík en 6 á Akureyri og er það nærri meðallagi á báðum stöðvum.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinstundir í Reykjavík mældust 146,2 og er það 6 fleiri en í meðalaprílmánuði. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 147, 17 stundum fleiri en í meðalári.

Snjólag

Alhvítt var tvo daga í Reykjavík í mánuðinum, tveimur dögum færri en að meðaltali 1971 til 2000.

Á Akureyri voru alhvítu dagarnir líka tveir. Það er 9 dögum færri en í meðalári.

Snjóél í apríl
""
Éljagangur í Grímsnesi hinn 19. apríl 2014. Vörðufell er til hægri og fyrir framan það Brúará (nær) og Hvítá (fjær). Langholtsfjall í fjarska. Ljósmynd: Guðrún Nína Petersen.

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði á landinu var lítillega undir meðallagi og ríkjandi vindáttir nærri meðallagi. Illviðri voru ekki tíð. Nokkuð hvasst var þó um bænadagana (17. og 18.) og truflaði það samgöngur.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1006,6 hPa og er það 6,2 hPa undir meðallagi. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1032,4 hPa í Grímsey þann 29. en lægstur mældist hann á Dalatanga þann 12., 969,5 hPa.

Fyrstu fjórir mánuðir ársins 2014

Fyrstu fjórir mánuðir ársins hafa verið óvenjuhlýir og hafa aðeins þrisvar sinnum verið hlýrri í Reykjavík frá því að samfelldar mælingar hófust 1871 (hlýjast var 1964, síðan 1929 og 2003). Í öllum þeim tilvikum var töluvert hlýrra en nú. Litlu munar hins vegar á árinu í ár og næsta ári fyrir neðan á hlýindalistanum (1972).

Á Akureyri eru mánuðirnir fjórir þeir 9. hlýjustu frá upphafi samfelldra mælinga 1881.

Sérlega þurrt var í Reykjavík í janúar og febrúar og úrkoma var nærri meðallagi í apríl. Aftur á móti togaði úrkoman í mars summu fyrstu fjögurra mánaðanna nokkuð upp þannig að hún endaði í 86 prósentum af meðallagi mánaðanna fjögurra. Er það í minna lagi en langt frá öllum metum.

Á Akureyri var úrkoman hins vegar með mesta móti, þrátt fyrir frekar þurran apríl, samtals um 70 prósent umfram meðaltal. Úrkoman á Akureyri hefur aðeins þrisvar orðið meiri fyrstu fjóra mánuði ársins frá upphafi samfelldra mælinga 1928. Það var 1989 (úrkomumest), 1953 og 1990.

Meðalloftþrýstingur mánaðanna fjögurra hefur aðeins fimm sinnum verið lægri en nú, það var 1990 (lægst) og síðan 1989, 1903, 1863 og 1894. Mæliröðin nær aftur til 1823.

Skjöl fyrir apríl

Meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í apríl  2014
Þessa grein má einnig sækja eða lesa sem Tíðarfar í apríl 2014 (pdf 0,3 Mb).





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica