Fréttir
Snjómokstur á Sandsheiði.

Snjór og samgöngur - lokafundur SNAPS

Samnorrænt verkefni um öryggi vegfarenda

6.2.2014

Lokafundur og ráðstefna SNAPS verkefnisins verður haldinn á Ísafirði dagana 11. og 12. febrúar næstkomandi. Um tildrögin má lesa í eldri frétt.

SNAPS stendur fyrir Snow, Ice, and Avalanche Applications og er samstarfsverkefni styrkt af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins. Í verkefninu var lögð áhersla á að búa til þjónustu og afurðir sem nýtast þar sem snjór og snjóflóð eru vandamál í samgöngum.

Þann 12. febrúar verður opin ráðstefna þar sem afurðir verkefnisins verða kynntar, en þær eru m.a.:

  • Snjókort byggð á gervitunglamyndum - mismunandi gerðir
  • Bætt veðurlíkön og snjólíkön byggð á þeim
  • Skafrenningsspá
  • Snjóflóðaspá fyrir vegi
  • Líkön og gögn sem nýtast í snjóflóðaspá fyrir vegi
  • Upplýsingagjöf til vegfarenda vegna snjóflóðahættu á vegum

Ráðstefnan verður haldin á ensku og þar munu sérfræðingar frá Noregi, Svíþjóð og Finnlandi auk Íslands flytja erindi (sjá dagskrá pdf 0,6 Mb). Finnska vegaveðurlíkanið verður kynnt og upplýsingagjöf til vegfarenda þar í landi. Fjallað verður um hvernig Norðmenn takast á við snjóflóðahættu á vegum og ýmislegt fleira frá nágrannaþjóðum okkar sem einnig stríða við vandamál vegna snjóa, skafrennings, hálku og/eða snjóflóða á samgönguleiðum.

Þær afurðir sem urðu til fyrir Ísland verða sérstaklega kynntar: Snjókort fyrir Vestfirði og allt Ísland, skafrenningsspá fyrir Ísland þar sem gögn frá Steingrímsfjarðarheiði voru greind sérstaklega, snjóflóðaspá fyrir Kirkjubóls- og Súðavíkurhlíð, niðurstöður greiningar á sambandi snjóflóða og veðurs á þeim vegi og upplýsingar til vegfarenda með sms skilaboðum.

 Á vef verkefnisins má sjá ljósmyndir af viðfangsefnunum.


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica