Fréttir
Staðsetning Skaftárkatla í Vatnajökli.

Um Skaftárhlaupið

20.1.2014

Staðan núna

Rennsli Skaftár við Sveinstind hefur verið stöðugt síðan um hádegi í gær þegar hlaupið náði hámarki þar.

Hlaupið kemur líklegast úr vestari Skaftárkatlinum, sem síðast hljóp úr í september 2012. Það fæst ekki staðfest fyrr en með sjónrænni athugun úr flugi yfir katlana en nú er skýjað yfir jöklinum og ekkert skyggni.

Rennslið við Sveinstind er líklega ofmetið vegna íss í árfarveginum en rennslið við Skaftárdal er um 200 m³/s. Hlaupið náði niður í byggð síðdegis í gær og nær líklega hámarki í dag. Stærsti hluti hlaupsins fer í Eldvatn og þaðan í Kúðafljót en minni hlutinn fer í Skaftá við Kirkjubæjarklaustur.

Megn brennisteinslykt er af ánni en magn brennisteinsvetnis getur getur verið hættulegt fólki nærri upptökum hlaupsins. Eins og staðan er núna er þetta lítið hlaup (sjá línurit) og rennslið ekki meira en oft er á sumrin og hlaupið ætti ekki að valda neinu tjóni í byggð. Veðurstofan fylgist náið með framvindu hlaupsins.

Möguleg vá

Næstu daga munu flóðaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.

Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.

Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.

Rennsli í hlaupinu sem nú stendur yfir er þó lítið, eins og meðfylgjandi 17 mánaða yfirlit sýnir:

Rennsli Eldvatns við Ása
""
Rennsli Eldvatns við Ása í rúmt ár (stærra línurit). Skaftárhlaup fara að stærstum hluta niður Eldvatnið. Sjá má að rennsli í hlaupinu sem nú stendur yfir er ekki óvenjulegt. Í stóru hlaupi fara yfir 900 m³/s niður Eldvatn og rennslið núna er lítið í samanburði við það.

Bakgrunnur

Upptök hlaupa í Skaftá eru undir tveimur jarðhitakötlum í Vatnajökli. Þegar hleypur úr þeim rennur vatnið fyrst um 40 km undir jöklinum og síðan 20 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmæli, sem er viðvörunarmælir við Sveinstind. Söfnunarhraði í katlana er nokkuð jafn, því er langur tími á milli flóða jafnan ávísun á stór flóð. Hlaup úr eystri katlinum eru jafnan stærri en þau sem koma úr vestari katlinum.

Úr hvorum katli hleypur að jafnaði á tveggja ára fresti. Hámarksrennsli í hlaupum úr Vestri katlinum hefur mest orðið um 900 m³/s, en venjulega á bilinu frá 200 til 700 m³/s. Vatn tekur nokkurn tíma að ná niður að þjóðvegi, en það mun flæða út á hraunið neðan Skálarheiðar. Útbreiðsla þess nær þó ekki hámarki fyrr en nokkru eftir að það tekur að draga úr rennsli við Sveinstind.

Nánari upplýsingar er að finna í eftirfarandi greinargerð Veðurstofunnar: Handbók um Skaftárhlaup. Viðbragðsáætlun (pdf 9,4 Mb).

Kortið hér undir sýnir uppruna hlaupsins, þær ár sem verða fyrir áhrifum vegna þess og staðsetningar rennslistöðva. Starfsmenn Veðurstofu fylgjast náið með þróuninni næstu sólarhringa.


Vatnavársérfræðingar:
Gunnar Sigurðsson
Hilmar Björn Hróðmarsson
Snorri Zóphóníasson
Matthew J. Roberts





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica