Tíðarfar í september 2013
Stutt yfirlit
Hiti í september var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990, en víðast hvar rúmlega 1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Úrkomusamt var á landinu og þurrkar víða daufir. Mikið norðanillviðri með nokkrum sköðum gerði um miðjan mánuðinn og setti niður talsverðan snjó á heiðar og í fjöll.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík var 7,1 stig, 0,2 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990, en 1,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta er kaldasti september síðan 2005, en hiti var mjög svipaður í september í fyrra. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 6,7 stig og er það í meðallagi. Á Akureyri mældist meðalhiti 6,4 stig og er það 0,1 stigi ofan meðallags 1961 til 1990 en 1,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 7,3 stig og 1,9 stig á Hveravöllum.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | hiti | vik | röð | af |
Reykjavík | 7,1 | -0,2 | 96 | 143 |
Stykkishólmur | 6,7 | 0,0 | 114 | 168 |
Bolungarvík | 6,1 | -0,1 | 78 til 79 | 116 |
Akureyri | 6,4 | 0,1 | 86 til 87 | 132 |
Egilsstaðir | 6,3 | 0,1 | 38 | 59 |
Dalatangi | 7,3 | 0,7 | 36 | 75 |
Teigarhorn | 7,1 | 0,2 | 79 | 141 |
Höfn í Hornafirði | 7,3 | 0,0 | ||
Stórhöfði | 6,9 | -0,4 | 105 | 136 |
Hveravellir | 1,9 | -0,5 | 39 | 48 |
Árnes | 6,3 | -0,6 | 101 til 102 | 134 |
Hæstur var meðalhiti mánaðarins á Garðskagavita, 8,1 stig og 7,9 í Surtsey. Lægstur var meðalhitinn á Þverfjalli, 0,3 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, 3,0 stig.
Hæsti hiti mánaðarins mældist á Hallormsstað þ. 7., 20,4 stig. Á mannaðri stöð mældist hitinn hæstur 19,8 stig þ. 8. á Skjaldþingsstöðum.
Lægsti hiti mánaðarins mældist -13,4 stig á Brúarjökli þann 28. Í byggð mældist lægsti hitinn -7,3 stig í Möðrudal þann 19. Lægsti hiti á mannaðri stöð mældist -5,0 stig á Grímsstöðum þann 28.
Frostið á Brúarjökli þann 28. er nýtt dægurmet (lægsti lágmarkshiti 28. september). Eldra met var frá Grímsstöðum á Fjöllum árið 1969, -11,5 stig.
Úrkoma
Úrkoman mældist 89,7 mm í Reykjavík. Það er um 35% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Meiri úrkoma mældist í Reykjavík í september í fyrra heldur en nú. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 129,1 mm. Það er meira en tvöföld meðalúrkoma septembermánaðar og það mesta í september síðan 2008. Á Akureyri mældist úrkoman 62,5 mm, það er um 60% umfram meðallag. Úrkoma á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist 209,1 mm og er það líka um 60% umfram meðallag.
Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri voru 19 í Reykjavík, sjö dögum fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 8 og er það í meðallagi.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskin í Reykjavík mældist í 120,1 stund, 5 stundum minna en í meðalári. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 98,8. Það eru 13 stundir umfram meðallag.
Vindhraði og loftþrýstingur
Vindhraði á landinu var um 0,4 m/s undir meðallagi. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1005,8 hPa og er það 0,3 hPa yfir meðallagi. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1031,5 hPa í Grímsey þann 23. en lægstur mældist hann 968,1 hPa á Dalatanga þann 16.
Sumarið (júní til september)
Meðalhiti í Reykjavík mældist 9,5 stig og er það 0,2 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 en 1,3 stigi undir meðaltali síðustu 10 ára. Hitinn er í 82. sæti sumarmeðalhita í Reykjavík, en upphaf mælinga er talið 1871. Þetta er kaldasta sumar í Reykjavík frá 1995 að telja. Á Akureyri er meðalhiti mánaðanna fjögurra 9,9 stig og er það 0,9 stigum ofan við meðallagið 1961 til 1990 en 0,2 stigum neðan við meðallag síðustu 10 ára. Þetta er 31. hlýjasta sumarið á Akureyri frá upphafi samfelldra mælinga 1881. Á Egilsstöðum var meðalhiti mánaðanna fjögurra 9,8 stig og er það 1,1 stigi ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 0,2 stigum ofan meðallags síðustu 10 ára. Þetta er 11. hlýjasta sumar á Egilsstöðum frá upphafi samfelldra mælinga þar 1954.
Úrkoma í Reykjavík mánuðina júní til ágúst mældist 36% meiri en í meðalári. Hún var nánast jafnmikil í þessum mánuðum árið 2008. Úrkoman mældist 1 mm eða meiri 61 dag. Það er 16 dögum fleiri en í meðalsumri. Fjöldinn náði síðast 60 sumarið 2003 (62 dagar). Á Akureyri mældist úrkoma mánaðanna þriggja um 90% af meðalúrkomu.
Sólskin mældist 541 stund í Reykjavík í mánuðunum fjórum. Það er 71 stund undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 185 stundum minna en að meðaltali 2003 til 2012. Sýnir þetta vel hversu óvenjuleg síðustu tíu ár voru í langtímasamhengi. Þarf að fara aftur til sumarsins 1999 til að finna færri sólskinsstundir heldur en nú í mánuðunum júní til september.
Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 560 í mánuðunum júlí til september. Það er í meðallagi 1961 til 1990 en 48 stundum færri en meðaltal áranna 2003 til 2012. Sólskinsstundir sumarsins 2005 voru færri á Akureyri heldur en nú.
Fyrstu níu mánuðir ársins (janúar til september)
Meðalhiti fyrstu níu mánaða ársins er í Reykjavík 1,1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en aftur á móti 0,6 stigum undir meðaltali síðustu 10 ára. Árið er í 31. til 32. sæti hlýindaára. Miðað er við mælingar frá 1871 til okkar daga.
Á Akureyri er meðalhitinn það sem af er ári 5,2 stig og er það 1,0 stigi ofan meðaltalsins 1961 til 1990 og 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Árið er í 26. til 27. sæti hlýrra ára á Akureyri frá 1882.
Skjöl fyrir septembermánuð
Þessa grein, Tíðarfar í september 2013, má einnig lesa sem pdf-skjal (0,3 Mb)
Meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í september 2013.