Fréttir

Norðanóveður og stórhríð

Viðvörun fyrir laugardaginn 29. desember

29.12.2012

Dagsetning: 29. desember 2012 kl. 10:30

Veðurstofan varar við óveðri á Vestfjörðum og  norðan- og vestanlands. Ekkert ferðaveður verður á vestan- og norðanverðu landinu í dag.

Spáin er eftirfarandi: N og NA 18-23 m/s (stormur, ofsaverður og á stöku stað fárviðri) um vestanvert landið í dag og með ströndinni NA-lands, hvassast á Vestfjörðum og sunnanverðu Snæfellsnesi. Mikið hægari vindur A- og SA-lands og í Rangárvallasýslu. Talsverð eða mikil snjókoma á N-verðu landinu en rigning eða slydda S- og A-lands. Dregur smám saman úr vindi og ofankomu vestantil í kvöld, en hvessir A-lands seint í nótt.

Á morgun, sunnudag, er spáð N 15-23 m/s víða um land fram eftir degi. Snjókoma eða él N-til á landinu en úrkomulítið S-lands.  Frost 1 til 7 stig.

Á höfuðborgarsvæðinu er enn að hvessa og þar er spáð norðaustan 15-23 m/s um og eftir hádegi, mishvasst eftir hverfum borgarinnar, hvassast á Kjalarnesi, en norðan 18-28 m/s í kvöld.  Líkur á stöku éljum í dag og hiti um frostmark. Norðan 13-20 m/s í fyrramálið, úrkomulaust og frost 0 til 5 stig.

Snjóflóðahætta: Víða hefur snjóað í fjalllendi undanfarna daga og snjóflóðahætta getur skapast hratt þegar hvessir. Þeim tilmælum er beint til skíðafólks, vélsleðamanna og annarra, sem eru á ferð, að halda sig frá snjóflóðabrekkum og vera ekki á ferð, þar sem snjóflóð geta fallið. Einnig er fólki bent á að stöðva ekki farartæki sín á vegarköflum, þar sem hætta gæti verið á snjóflóðum.

Sjávarflóðahætta: Stórstreymt er þessa dagana samfara óvenju lágum loftþrýstingi, mikilli veðurhæð, ölduhæð og áhlaðanda. Sjómönnum er bent á að huga vel að bátum og skipum í höfnum áveðurs.

Fólki er bent á að það er ekkert ferðaveður um N- og V-vert landið og að fylgjast náið með upplýsingum um veður og færð.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica