Jarðskjálftar á Íslandi í nóvember 2012
Tæplega 1500 jarðskjálftar mældust í nóvember með jarðskjálftamælakerfi Veðurstofunnar. Mesta virknin var í Eyjafjarðarál. Stærsti skjálftinn þar var 3,7 að stærð. Lítið jökulhlaup varð úr Grímsvötnum.
Á Krýsuvíkursvæðinu mældust tæplega 30 skjálftar, álíka margir og í síðasta mánuði. Stærsti skjálftinn var rúm tvö stig. Tveir smáskjálftar mældust við Brennisteinsfjöll og nokkrir á Bláfjallasvæðinu. Að kvöldi 22. nóvember hófst smáhrina um sex kílómetrum suðvestur af Geirfugladrangi á Reykjaneshrygg, 14 skjálftar mældust og var sá stærsti tæp þrjú stig.
Á niðurdælingarsvæði Orkuveitunnar, við Húsmúla á Hellisheiði, mældust 60 jarðskjálftar, heldur fleiri en í október. Smáhrinur urðu í upphafi, um miðbik og í lok mánaðarins en einhver virkni var í hverri viku. Stærsti skjálftinn var tæp tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust auk þess á Hengilssvæðinu og í Ölfusi. Nokkrir smáskjálftar urðu á Suðurlandsundirlendi, þar á meðal áttu tveir upptök norðaustur af Árnesi þann 14. nóvember. Sá fyrri varð kl. 01:30 og hinn mínútu síðar, báðir um og innan við einn að stærð.
Vestast í Langjökli mældust fimm jarðskjálftar, tveir suðvestan við Langjökul og einn undir Miklafelli, norðaustan í Hofsjökli, allir undir tveimur að stærð. Á Fjallabakssvæðinu voru staðsettir 36 jarðskjálftar, sá stærsti var nærri Hrafntinnuskeri þann 11. nóvember kl. 18:58, 2,7 að stærð.
Undir Goðalandsjökli mældust 40 jarðskjálftar, allir minni en 1,2. Í nágrenni Kötlu mældust 68 jarðskjálftar, aðeins tveir þeirra voru stærri en 1,2. Sá stærsti mældist 2,0 að stærð, þann 2. nóvember kl. 11:28.
Í mánuðinum hljóp úr Grímsvötnum. Staðfest var með leiðnimælingu í Gígjukvísl að hlaupvatn væri í ánni. Hlaupið var ekki mikið, enda stutt síðan hljóp síðast úr vötnunum og lítið vatn hafði safnast fyrir. Vatnshæð hækkaði lítillega í Gígjukvísl og rennsli var minna en á hlýjum sumardegi. Jarðskjálftamælir á Grímsfjalli sýndi smá óróa, sem benti til að vatn væri að brjóta sér leið undan jöklinum. Hlaupið náði hámarki 26. nóvember. Skjálftar mældust á svæðinu og sennilegt að einhverjir þeirra tengdust hlaupinu.
Jarðskjálftar undir Vatnajökli voru alls um 80. Flestir áttu upptök við Kistufell og norðan Bárðarbungu. Stærsti, 2,8 stig, var við Kistufell. Um tugur skjálfta mældist við Kverkfjöll, þeir stærstu um tvö stig, og einnig á Lokahrygg, austan Hamarsins, þar sem stærstu voru um 1,5 stig. Nokkrir skjálftar voru staðsettir við Esjufjöll, stærstu um tvö stig.
Á Dyngjufjallasvæðinu norðan Vatnajökuls mældust yfir 70 skjálftar. Smáhrina varð milli Öskju og Dreka í byrjun mánaðarins. Tæplega 30 jarðskjálftar voru staðsettir, stærsti 2,6 stig. Um tugur skjálfta átti upptök undir austurbarmi Öskju, þeir stærstu um tvö stig, og um tugur við Kollóttudyngju, stærsti skjálftinn um 2,5 stig. Nokkrir tugir smáskjálfta (innan við tvö stig) urðu í nágrenni Herðubreiðar og Herðubreiðartagla. Einnig mældust nokkrir smáskjálftar norður af Upptyppingum.
Um 970 jarðskjálftar voru staðsettir norður af landinu, þar af rúmlega 750 í Eyjafjarðarál. Sá stærsti var 3,8 að stærð þann 3. nóvember kl. 15:24. Nokkrir jarðskjálftar yfir þremur stigum mældust þar í byrjun mánaðarins. Nokkuð hafði þá dregið úr hrinunni, en þó heldur hún áfram og virknin var enn í gangi í lok mánaðarins. Langflestir skjálftar voru á upptakasvæði 5,6 skjálftans sem varð þann 21. október. Önnur skjálftaþyrping mældist um 10 kílómetrum austsuðaustur af þessu svæði. Að auki mældust um 20 smáskjálftar á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu, milli Gjögurtáar og Flateyjar, og einnig á Skjálfandaflóa. Allir voru minni en tvö stig.
Skjálftahrina varð í Öxarfirði í byrjun mánaðarins. Tæplega 160 skjálftar voru staðsettir þar, stærsti 3,2 stig þann 1. nóvember kl. 03:00. Nokkrir smáskjálftar mældust á Grímseyjarbelti og suðsuðaustan Kolbeinseyjar. Sá stærsti var 2,1 að stærð, austan Grímseyjar þann 30. nóvember kl. 19:36. Að kvöldi 7. nóvember varð smáhrina við Þeistareyki. Um 10 skjálftar voru staðsettir, allir minni en tvö stig. Smávirkni var líka í Kröfluöskjunni í nóvember.