Jarðskjálftar í október 2012
Rúmlega 2000 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í október. Langflestir og stærstu skjálftar mánaðarins urðu í Eyjafjarðarál. Tveir voru yfir 5 að stærð og fleiri yfir 4 að stærð. Þeir fundust víða norðanlands.
Um 10 jarðskjálftar mældust nyrst á Reykjaneshrygg og var stærsti skjálftinn 2,8 að stærð. Við Reykjanestána mældust fimm jarðskjálftar og voru þeir allir undir 1,3 að stærð. Þann 31. október varð skjálfti af stærð 2,1 með upptök tæpa 3 km norður af Grindavík. Á Krýsuvíkursvæðinu voru innan við 30 jarðskjálftar og voru allir minni en 2,1 að stærð. Tæplega helmingur þeirra átti upptök undir norðanverðu Kleifarvatni þann 7. október.
Um tugur skjálfta var við Vífilsfell dagana 4. og 19. október og voru þeir allir minni en 1,5 að stærð. Jarðskjálftahrina var fyrri hluta mánaðarins með upptök um 2-3 km norðvestan við Geitafell. Stærsti skjálftinn var 4 að stærð þann 5. október kl. 19:42. Hann fannst vel víða á höfuðborgarsvæðinu, í Þorlákshöfn og einnig á Akranesi. Sama dag kl. 18:01 var skjálfti um 3 að stærð á sama stað og fannst hann einnig á höfuðborgarsvæðinu. Rúmlega 130 jarðskjálftar mældust í þessari skjálftahrinu, aðallega dagana 5.-9. október.
Tæplega 50 smáskjálftar mældust við Húsmúla, nær allir dagana 17. og 18. október og var stærsti skjálftinn um 2 að stærð. Á Hengilssvæðinu mældust um 15 smáskjálftar. Í Ölfusinu voru staðsettir rúmlega 50 jarðskjálftar, mest seinni hluta mánaðarins. Upptök flestra þeirra voru suðaustan við Hjallahverfið í Ölfusi og var stærsti skjálftinn 1,7 stig. Á Suðurlandsundirlendinu voru fáeinir smáskjálftar við Hestfjall, í Holtum og í Landssveit. Einn smáskjálfti um 1 að stærð mældist undir Heklu þann 20. október.
Um 120 skjálftar voru staðsettir við Mýrdalsjökul. Stærsti skjálftinn, 3,1 að stærð, átti upptök undir norðurhluta öskjunnar þann 3. okt. kl. 08:26. Dálítil virkni var við Goðaland og Hafursárjökul en lítil innan öskjunnar. Virkni við Mýrdalsjökul var almennt í minna lagi í október. Nítján skjálftar voru staðsettir á Torfajökulssvæðinu, mest á vesturhluta svæðisins.
Átta skjálftar voru staðsettir við Langjökul, þar af fjórir aðfaranótt sunnudagsins 14. október við suðvestanverðan jökulinn, sá stærsti 2,1 að stærð.
Rúmlega 100 skjálftar mældust undir Vatnajökli og er það mun meiri virkni en í síðasta mánuði en álíka fjöldi og í ágúst. Tvær skjálftahrinur urðu, sú fyrri við Kistufell en síðari undir Kverkfjöllum. Á sjöunda tug skjálfta mældist undir Kistufelli, flestir í skjálftahrinu sem hófst undir miðjan mánuð og stóð í um fjóra daga. Stærsti skjálftinn varð í hádeginu sunnudaginn 14. október og var hann um þrjú stig. Föstudaginn 19. október hófst skjálftahrina undir Kverkfjöllum sem stóð með smáhléi fram yfir þá helgi. Tæplega 60 skjálftar mældust alls undir Kverkfjöllum, langflestir í hrinunni og var sá stærsti um þrjú stig. Tiltölulega rólegt var við Bárðarbungu og ekkert um að vera við Grímsvötn, líkt og síðustu vikurnar.
Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust um 90 skjálftar, þar af um þriðjungur í smáhrinu sem varð síðustu viku mánaðarins skammt norðaustan við Öskju. Í hrinunni var stærsti skjálftinn 2,4 stig og var hann einnig stærstur á öllu svæðinu. Um tugur skjálfta mældist undir suðausturbrún Öskju en auk þessara tveggja staða var virknin nokkuð dreifð um svæðið. Heldur meiri virkni var á þessum slóðum en í síðasta mánuði.
Mikil skjálftavirkni var úti fyrir Norðurlandi í svonefndum Eyjafjarðarál, sem er sigdalur milli Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins og Kolbeinseyjarhryggjarins. Yfir 900 skjálftar hafa verið yfirfarnir í hrinunni. Tveir skjálftar yfir 5 að stærð urðu þann 21. október. Sá fyrri, 5,2 að stærð, varð laust eftir miðnætti og sá síðari sem var 5,6 varð klukkan 01:25. Tæplega 40 jarðskjálftar yfir þremur stigum mældust næstu daga á eftir og virknin var enn í gangi í lok mánaðarins en nokkuð hafði þá dregið úr henni. Dagana eftir meginskjálftann (5,6) færðist skjálftavirknin nær Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu.
Frá 23. til 25. október mældust skjálftar NV af Gjögurtá, um það bil 25 km ASA af svæðinu þar sem meginskjálftinn varð þ.e. í austasta hluta Eyjafjarðaráls, á mörkum hans og vestasta hluta Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins. Þessi færsla benti til þess að skjálftarnir gætu haft áhrif á spennulosun á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu og í framhaldi af því fundaði vísindamannaráð Almannavarna um stöðuna. Óvissustigið, sem sett var á, endurspeglar þann möguleika að hrinur sem þessar geti hleypt af stað stórum skjálftum þar sem há spenna er á misgengi, eins og raunin er á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu.
Auk þess voru tvær smáhrinur í nágrenni Grímseyjar í byrjun mánaðarins. Alls mældust um 140 jarðskjálftar í tveimur þyrpingum austan og norðaustan Grímseyjar. Stærsti skjálftinn þar var 3,3 stig þann 13. október kl. 03:33. Um 200 smáskjálftar mældust í Öxarfirði, sá stærsti var 2,9 stig þann 21. október kl. 03:51. Nokkrir smáskjálftar áttu upptök á Skjálfandaflóa og sunnan Kolbeinseyjar. Smávirkni var líka á Þeistareykjum og í Kröfluöskjunni.