Fréttir
Jarðskjálftahrina í Eyjafjarðarál í október 2012.

Nánar um skjálftahrinuna í Eyjafjarðarál

26.10.2012

Skjálftavirknin við Eyjafjarðarál heldur áfram en lítilsháttar hefur dregið úr virkninni frá því í gærkveldi. Stærstu skjálftarnir umhverfis upptakasvæði M5,6 skjálftans á sunnudagsmorgun hafa verið M3,6 kl. 03:42 og M3,2 kl. 07:47 þann 25. október. Seinni part þriðjudags (23. október) færðist hluti virkninnar til austurs og ný þyrping myndaðist um 5 km NNV af Gjögurtá, á svæði þar sem austurhluti Eyjafjarðaráls og Húsavíkur-Flateyjarmisgengið mætast. Stærstu skjálftarnir í þyrpingunni mældust M3,1 kl. 23:38 þann 23. október og 3,2 kl. 22:20 þann 24. október (sjá mynd hér til hliðar).

Meðan skjálftarnir vestast í hrinunni einkennast af siggengishreyfingum (sjá skemað neðst á síðu) sem er dæmigert fyrir sigdali eins og Eyjafjarðarál og tengjast gliðnun yfir dalinn, þá eru sniðgengishreyfingar (sjá skemað neðst á síðu) meira áberandi í austari þyrpingunni. Þó sniðgengishreyfingar séu einkennandi fyrir sprungukerfi eins og Húsavíkur-Flateyjarmisgengið (margir slíkir skjálftar í viku hverri) þá benti þróunin á þriðjudag til þess að hrinan í Eyjafjarðarál hefði áhrif á vesturhluta misgengisins. Þar sem talið er að talsverð spenna hafi safnast upp sérstaklega á vesturhluta Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins, er sá  möguleiki fyrir hendi að hrinan komi af stað stórum skjálfta.

Í kjölfarið funduðu Almannavarnir og vísindamenn um stöðuna. Óvissustigið sem sett var á  enduspeglar þann möguleika að hrinur sem þessar geta hleypt af stað stórum skjálftum þar sem há spenna er á misgengjum, eins og raunin er á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu.

Eins og kom fram í fyrri frétt þá hefur spenna smám saman verið að aukast á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Jarðskorpumælingar (GPS) á síðustu árum benda til þess að nægileg spenna sé til staðar fyrir skjálfta af stærðinni um 6,8 (Metzger o.fl., 2011) en stærstu skjálftar sem vitað er um á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu hafa verið metnir á um 7 stig eins og t.d. 1755 skálftinn. Þetta mat á spennu er hins vegar mjög gróft og háð forsendum sem ekki eru vel þekktar. Til viðbótar þessu er ekki vitað hversu nálægt brotmörkum mismunandi hlutar misgengisins eru.

Það er óljóst hvort spennulosunin í hrinunni í Eyjafjarðarál sé nægjanleg til að hleypa af stað stórum skjálftum en í ljósi þess að líklega er há spenna á misgenginu, bæði vestan og austan við Gjögurtá, verður að gera ráð fyrir að öflugar hrinur eins og sú sem hófst um helgina geti hleypt af stað stærri skjálftum. Sú spennubreyting sem á sér stað í hrinunni er varanleg en það er háð því  hve nálægt ákveðnir hlutar Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins eru brotmörkum, hver þróunin verður í framhaldinu. Það er því rétt að gera ráð fyrir stórum skjálftum á svæðinu á næstu árum og áratugum en hafa sérstakan vara á þegar öflugar hrinur sem þessi verða.

Áfram verður fylgst náið með svæðinu og vísindamenn á Veðurstofunni og í Háskólanum eru í nánu sambandi við Almannavarnir um þróun mála. Á vefsetri Almannavarna má finna leiðbeiningar fyrir almenning um hvernig hægt er að undirbúa sig fyrir jarðskjálfta og Landsbjörg hefur gert myndband.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica