Fréttir
Jarðskjálftahrina í Eyjafjarðarál í okt. 2012.

Jarðskjálftahrina í Eyjafjarðarál

21.10.2012

Jarðskjálftahrina með upptök syðst í Eyjafjarðarál úti fyrir Norðurlandi hefur verið í gangi síðan í gær, 20. október. Upptökin eru um 19 – 20 kílómetra norðnorðaustur af Siglufirði og nokkru suðvestar en skjálftahrina sem varð í september síðastliðinn.

Stærstu skjálftarnir í nótt voru 5,6 að stærð kl. 01:25 og 4,8 að stærð kl. 00:10. Stærsti skjálftinn var fyrst metinn 5,2 að stærð en eftir að tekin voru með gögn frá skjálftastöðvum á meginlandi Evrópu og Norður Ameríku reynist hann vera heldur stærri eða 5,6.

Margir skjálftanna hafa fundist á Norðurlandi. Tilkynningar hafa borist um að stærsti skjálftinn hafi auk þess fundist á Ísafirði og allt suður til höfuðborgarsvæðisins. Hann fannst einnig á Seyðisfirði.

Mesta virknin var í nótt en verulega dró úr henni snemma í morgun. Skjálftar um og yfir þrír að stærð hafa mælst annað slagið síðan í morgun. Skjálftarnir eru hefðbundnir brotaskjálftar. Búast má við eftirskjálftum næstu daga og ekki er hægt að útiloka að þeir verði fjögur stig eða stærri.

Þrátt fyrir að jarðskjálftar séu algengir í Tjörnesbrotabeltinu, úti fyrir Norðurlandi, er stærsti skjálftinn í nótt sá stærsti sem mælst hefur frá árinu 1976 þegar skjálfti af stærðinni 6,2 varð í nágrenni Kópaskers.

Eyjafjarðaráll er sigdalur milli Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins og syðsta hluta Kolbeinseyjarhryggjarins. Stærstu skjálftar sem mælst hafa í Tjörnesbrotabeltinu eru um sjö að stærð eins og t.d. Skagafjarðarskjálftinn, 28. mars 1963.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica