Nýtt lágþrýstimet í júlímánuði
Meir en aldargamalt met fellur
Sunnudaginn 22. júlí 2012 kom mjög djúp og víðáttumikil lægð upp að suðurströndinni. Þrýstingur í lægðarmiðju var óvenju lágur miðað við árstíma og um kvöldið mældist hann lægri heldur en áður er vitað um í júlímánuði.
Lágur þrýstingur
Lægsti þrýstingurinn mældist á sjálfvirku stöðinni á Stórhöfða í Vestmannaaeyjum, 972,4 hPa frá kl. 21:30 til 22:30. Á mönnuðu stöðinni á sama stað var lægst lesið í athugun kl. 21, 972,8 hPa. Á nokkrum sjálfvirkum stöðvum fór þrýstingur ámóta neðarlega. Í Grindavík kl. 18:10 (972,7 hPa), í Vestmannaeyjabæ kl. 21:30 til 22:40 (973,0 hPa), í Surtsey kl. 21:40 (972,7 hPa) og í Önundarhorni kl. 23:40 (972,6 hPa). Loftvog mældist 972,8 hPa á Kirkjubæjarklaustri kl. 3 aðfaranótt 23. júlí.
Allar tölurnar eru leiðréttar til sjávarmáls. Þar sem stöðvarnar á Stórhöfða eru í um 120 metra hæð er óvissa í þeirri leiðréttingu meiri heldur en á hinum stöðvunum. Þar til næsta kvörðun fer fram á sjálfvirku mælunum á stöðvunum telst lágþrýstimet júlímánaðar 972,8 hPa – mælt á Stórhöfða kl. 21, þann 22. júlí og á Kirkjubæjarklaustri kl. 3 þann 23. júlí.
Gamla metið var sett í Stykkishólmi þann 18. júlí 1901 og var 974,1 hPa, tvisvar síðar, þann 19. júlí 1923 varð þrýstingur ámóta lágur - einnig í Stykkishólmi og 11. júlí 1912 í Reykjavík. Hafa ætti í huga að á þessum árum var aðeins mælt þrisvar á dag. Þéttari mælingar hefðu e.t.v. skilað lítillega lægri þrýstitölum.
Hvassviðri
Talsvert hvassviðri fór á undan lægðinni nú en hvassast var um sólarhring áður en sjálf lægðarmiðjan kom að landinu. Vindhraðamet fyrir júlí voru sett á nokkrum sjálfvirkum stöðvum sem starfað hafa meira en fimm ár. Nýju 10-mínútna metin eru (tölur í m/s):
stöð | byrjar | metár | mán | dagur | klst | vindhr | NAFN |
6015 | 2002 | 2012 | 7 | 21 | 21 | 19,1 | Vestmannaeyjabær |
6017 | 2004 | 2012 | 7 | 21 | 21 | 30,9 | Stórhöfði sjálfvirk stöð |
6222 | 2000 | 2012 | 7 | 21 | 21 | 18,1 | Sámsstaðir |
6546 | 2005 | 2012 | 7 | 21 | 24 | 24,8 | Vatnsfell |
Og hviðumetin (m/s):
stöð | byrjar | metár | mán | dagur | klst | vindhr | NAFN |
2641 | 2005 | 2012 | 7 | 23 | 10 | 27,8 | Seljalandsdalur - skíðaskáli |
2642 | 1999 | 2012 | 7 | 22 | 3 | 26,8 | Ísafjörður sjálfvirk stöð |
6015 | 2002 | 2012 | 7 | 21 | 21 | 31,8 | Vestmannaeyjabær |
6546 | 2005 | 2012 | 7 | 21 | 23 | 33,3 | Vatnsfell |
Hviðumet fyrir júlí voru sett á tveimur vegagerðarstöðvum sem starfað hafa í meir en sjö ár:
stöð | byrjar | metár | mán | dagur | klst | vindhr | NAFN |
36127 | 2002 | 2012 | 7 | 21 | 21 | 39,5 | Hvammur |
36519 | 2002 | 2012 | 7 | 21 | 24 | 26,3 | Gullfoss |