Tíðarfar í júní 2012
Stutt yfirlit
Júnímánuður var hlýr um landið vestanvert en fremur kaldur austanlands. Mjög þurrt var á landinu, sérstaklega þó norðvestanlands þar sem mánuðurinn var sá þurrasti sem vitað er um. Sérlega sólríkt var um landið sunnan-, vestan- og norðanvert. Hægviðrasamt var í mánuðinum.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík mældist 10,7 stig, 1,7 stigi ofan meðallags og er þetta áttundi hlýjasti júnímánuður sem vitað er um i Reykjavík (tillit er tekið til flutninga stöðvarinnar um bæinn). Júní 2010 var hlýrri heldur en júní nú. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 9,7 stig og er það 1,6 stigum yfir meðallagi. Mun kaldara var um landið austanvert. Á Akureyri var meðalhitinn 8,9 stig, eða 0,3 stigum undir meðallagi, og á Egilsstöðum var hiti 1,3 stigum undir meðallagi. Júní í fyrra (2011) var þó talsvert kaldari norðaustanlands heldur en sá nýliðni. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu. Þar má einnig sjá hvar mánuðurinn raðast í meðalhitaröð, frá þeim hlýjasta talið.
stöð | hiti | vik | röð | af |
Reykjavík | 10,7 | 1,7 | 8 | 142 |
Stykkishólmur | 9,7 | 1,6 | 11 til 12 | 167 |
Bolungarvík | 8,5 | 1,5 | 32 | 115 |
Akureyri | 8,9 | -0,3 | 81 | 131 |
Egilsstaðir | 7,4 | -1,3 | 50 | 57 |
Dalatangi | 5,6 | -0,6 | 60 | 73 |
Teigarhorn | 6,1 | -1,2 | 121 | 140 |
Höfn í Hornaf. | 8,0 | |||
Kirkjubæjarklaustur | 9,8 | 0,5 | 40 til 41 | 86 |
Stórhöfði | 9,3 | 1,3 | 14 til 15 | 135 |
Árnes | 10,7 | 1,4 | 15 | [131] |
Hveravellir | 6,9 | 2,0 | 6 | 47 |
Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Þyrli í Hvalfirði, 11,0 stig og 10,9 stig á Hafnarmelum. Lægstur var meðalhitinn á Gagnheiði, 1,1 stig. Í byggð og á láglendi var meðalhitinn lægstur í Seley, 4,9 stig og 5,2 í Papey.
Hæsti hiti mánaðarins mældist á Hellu á Rangárvöllum og í Árnesi þann 2., 22,8 stig. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist í Stafholtsey þann 1., 21,2 stig. Hiti komst í 20 stig aðeins sjö daga í mánuðinum.
Lægstur mældist hitinn á Gagnheiði þann 5., -5,7 stig. Í byggð mældist hitinn lægstur -4,4 stig á Brú á Jökuldal þann 13. Sama dag mældist lágmarkshiti -2,7 stig á Grímsstöðum á Fjöllum. Var það lægsta lágmark á mannaðri stöð í mánuðinum. Hiti fór niður fyrir frostmark á landinu alla daga nema fimm í mánuðinum og í byggð mældist frost 20 daga mánaðarins.
Engin landsdægurmet hita féllu í mánuðinum.
Úrkoma
Mjög þurrt var á landinu og úrkoma alls staðar minni en í meðalári. Þurrkarnir voru óvenjulegastir um landið vestanvert, allt frá Reykjanesskaga í suðri norður og austur um til Skagafjarðar. Úrkoma hefur aldrei mælst jafnlítil í júní á fjölmörgum stöðvum á þessu svæði, m.a. í Stykkishólmi þar sem mælt hefur verið samfellt í júní frá 1857. Úrkoman í Stykkishólmi mældist nú aðeins 0,6 mm.
Úrkoma mældist 13,8 mm í Reykjavík og er það aðeins 28 prósent meðalúrkomu. Ámóta þurrt var í Reykjavík í júní í fyrra (2011) og sömuleiðis mældist úrkoma litlu minni 2008 og 1980. Þurrasti júni í Reykjavík var 1971 en þá mældist úrkoma aðeins 2,1 mm.
Á Akureyri mældist úrkoman í júní 9,9 mm og er það um 35 prósent meðalúrkomu. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman aðeins 12,6 mm. Þetta er minnsta júníúrkoma þar um slóðir frá 1991.
Sólskinsstundir
Óvenjusólríkt var bæði í Reykjavík og á Akureyri. Í Reykjavík mældust sólskinsstundirnar 320,6 og hafa aðeins einu sinni orðið fleiri í júní. Það var 1928 þegar þær mældust 338,3. Sól skein nú 159 stundir umfram meðallag í júní. Samanlagt eru sólskinsstundir í maí og júní í Reykjavík nú 617 stundir og hafa aldrei mælst svo margar í þessum tveimur mánuðum samanlagt.
Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 258,4 og er það 82 stundum umfram meðallag. Sólskinsstundirnar voru ámóta margar á Akureyri í júní 2010.
Loftþrýstingur og vindhraði
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1017,2 hPa og er það 7,1 hPa yfir meðallagi. Þrýstingur var ívið hærri en nú í júní 2009 og svipaður og nú 2007. Síðan þarf að fara aftur til 1982 og 1971 til að finna ámóta háan þrýsting eða hærri.
Loftvog var hæst á Höfn í Hornafirði þann 1., 1029,0 hPa en lægst á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þann 6. 1006,3 hPa.
Hægviðrasamt var í mánuðinum. Meðalvindhraði var um 0,7 m/s undir meðallagi. Meðalvindhraði var lítillega lægri í júní 2009 heldur en nú.
Fyrstu sex mánuðir ársins
Hlýtt hefur verið á landinu það sem af er ári. Í Reykjavík hefur aðeins átta sinnum verið hlýrra fyrstu sex mánuðina frá því að mælingar hófust og í Stykkishólmi hefur aðeins fjórum sinnum verið hlýrra. Sex sinnum hefur verið hlýrra á Akureyri.
Þrátt fyrir þurrkana undanfarnar vikur er úrkoma enn yfir meðallagi á landinu miðað við fyrstu sex mánuði ársins því óvenjuúrkomusamt var fyrstu mánuðina.
Sólskinsstundir hafa verið óvenjumargar í Reykjavík og hafa aðeins einu sinni verið fleiri fyrstu sex mánuði ársins. Það var 1924.
Bólstraský. Myndin er tekin 23. júní 2012 á Uxahryggjaleið. Þórisjökull í forgrunni.
Ljósmynd: Guðrún Nína Petersen.