Fréttir
Jarðskjálftar í maí 2012
Jarðskjálftar í maí 2012

Jarðskjálftar í maí 2012

14.6.2012

Hátt í 1300 jarðskjálftar mældust með SIL jarðskjálftamælakerfi Veðurstofunnar í maí. Helsti atburður var skjálftaröð við Herðubreið, sem hófst með skjálfta rúmlega þrír að stærð um miðjan mánuðinn. Hundruð eftirskjálfta fylgdu í kjölfarið. Skjálftavirkni við Húsavík, sem hófst í lok apríl, hélt áfram í maí. Stærstu skjálftarnir sem mældust í mánuðinum voru lengst suður á Reykjaneshrygg og norður á Kolbeinseyjarhrygg.

Fremur fáir jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg í maí. Um miðjan mánuðinn mældist um tugur skjálfta við Reykjanestá, allir innan við tvo að stærð. Um 90 kílómetra frá landi, suðvestan Eldeyjarboða, mældust nokkrir skjálftar og tugur um 170 kílómetra frá landi. Um miðjan mánuðinn mældust nokkrir jarðskjálftar sem áttu upptök sunnan 60° norðurbreiddar. Þeir voru um fjórir að stærð. Lítil skjálftavirkni var á Reykjanesskaga í mánuðinum. Eins og undanfarna mánuði mældust flestir skjálftar á Krýsuvíkursvæðinu, eða 40 - 50. Aðrir voru fáir og dreifðir um skagann.

Innan við tuttugu skjálftar mældust á niðurdælingarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur við Húsmúla, allir smáir. Aðrir skjálftar á Hengilssvæðinu og í Ölfusi voru fáir, dreifðir og litlir. Innan við þrjátíu skjálftar mældust á Suðurlandsundirlendinu, flestir á sprungunum frá 2008 og svo á Selsundssprungu frá 1912. Allir voru innan við 1,5 að stærð.

Rúmlega 250 skjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu í mánuðinum og er það svipuð virkni og mánuðinn á undan. Um 80 skjálftar mældust í Öxarfirði og annar eins fjöldi við Húsavík. Smáhrina hófst skammt vestur af Kópaskeri síðdegis sunnudaginn 6. maí og stóð fram á næsta  morgun, á þriðja tug skjálfta mældust. Miðvikudagskvöldið 2. maí hófst smáhrina um átta kílómetrum norðvestan Húsavíkur og stóð hún fram eftir nóttu. Árla föstudagsmorguns hófst  önnur, tveimur kílómetrum nær Húsavík. Samtals mældist á fjórða tug skjálfta í báðum þessum hrinum, allir litlir. Þessar tvær hrinur eru  framhald af skjálftahrinu sem hófst síðasta dag aprílmánaðar og stóð fram yfir mánaðamótin. Þessar þrjár hrinur röðuðust í þrjár þyrpingar, sú fyrsta vestast á svæðinu og sú síðasta austast og næst landi. Á svæðinu norðaustan og austan við Grímsey mældust rúmlega 30 skjálftar, stærstu um tvö stig. Stærsti skjálftinn á Norðurlandi varð um miðjan mánuð um það bil sex kílómetrum norðvestur af Tjörnesi, 2,6 að stærð.

Undir Vatnajökli mældust tæplega 70 jarðskjálftar eða svipað og mánuðinn á undan. Upptök flestra skjálftanna voru við Kistufell, Bárðarbungu og á Lokahrygg. Stærstu skjálftarnir, um 1,5 að stærð, voru á Lokahrygg. Fáeinir smákjálftar mældust einnig í Kverkfjöllum, í Skeiðarárjökli, við Esjufjöll og víðar.

Frá byrjun mánaðarins mældust allmargir skjálftar fáeina kílómetra suðvestan við Herðubreið. Í framhaldi af jarðskjálfta rúmlega þrír að stærð um hádegisbilið þann 14. maí jókst skjálftavirknin verulega. Fyrstu fjóra dagana á eftir mældust um 400 jarðskjálftar í hrinu sem fjaraði síðan út fram eftir mánuðinum. Alls mældust um 600 jarðskjálftar á svæðinu. Upptök skjálftanna suðvestan við Herðubreið voru aðallega á tveimur lóðréttum samsíða brotaplönum með strikstefnur á bilinu N40° - 50°A. Einnig voru skjálftar norðan við Herðubreið og við Töglin. Um 20 smáskjálftar áttu upptök við Öskju og mældust þeir af og til í mánuðinum.

Í mánuðinum mældust tæplega 160 jarðskjálftar við Mýrdalsjökul, þar af ríflega 90 í Kötluöskjunni, 23 við Hafursárjökul og 39 vestan Goðabungu. Tveir stærstu skjálftarnir, sem voru rúmlega 2 að stærð, urðu 7. og 15. maí í miðri Kötluöskjunni. Í nágrenni Torfajökuls mældust 17 jarðskjálftar, sá stærsti var 1,7 að stærð þann 18. maí. Við vestanverðan Langjökul mældust átta jarðskjálftar, sá stærsti 1,3 að stærð.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica