Fréttir
Snjóflóð í Ólafsvík
Stoðvirki í Tvísteinahlíð. Heilsugæslustöð Ólafsvíkur er til vinstri á myndinni.
1 2

Snjóflóð féll ofan við heilsugæslustöðina í Ólafsvík

- stoðvirki drógu úr stærð flóðsins

27.3.2012

Snjóflóð féll úr Tvísteinahlíð ofan heilsugæslustöðvarinnar við Engihlíð í Ólafsvík þann 19. mars sl. Flóðið átti upptök upp undir brún hlíðarinnar frá fossi bæjarlækjarins og inn að stoðvirkjum sem reist hafa verið ofan heilsugæslustöðvarinnar til þess að draga úr snjóflóðahættu (sjá mynd 1 hér til hliðar).

Í stoðvirkjunum fór snjóflóð af stað milli raðanna og hrannaðist upp á virkjunum (sjá mynd 2 hér til hliðar) og flæddi jafnframt yfir grindurnar á nokkrum stöðum. Snjór fór einnig að stað neðan neðstu raðarinnar. Flóðið stöðvast í brekkurótum vestan virkjanna en neðan stoðvirkjanna stöðvaðist flóðið áður en það náði brekkufætinum (sjá kort hér fyrir neðan). Greinilegt er að stoðvirkin hafa komið í veg fyrir miklu stærra flóð.

Ólafsvík

Kort sem sýnir flóðið 19. mars (breiða, dökkrauða línan). Mjóu línurnar sýna útlínur flóða sem hafa fallið á fyrri árum. Heilsugæslustöðin er fyrir neðan hlíðina (eins og H í laginu). Dökku, slitnu línurnar eru stoðvirkjaraðir.

Áætla má að 5000-10000 m³ af snjó hafi stöðvast í grindunum sem er margfalt meira en rúmmál snævarins í snjóflóðstungunni neðan stoðvirkjanna. Ofan efstu grindarinnar hefur snjóþekjan ekkert farið af stað. Vera kann að það sé stoðvirkjunum að þakka en þar sem brotlínan vestan grindanna er u.þ.b. í hæð við efstu röðina þá er ekki víst að sá snjór hefði farið af stað.

Snjóflóð í ÓlafsvíkÁ nokkrum stöðum mátti sjá að snjóþekjan hafði skriðið af stað og sprungið upp en ekki náð að hreyfast mikið áður en snjórinn stöðvaðist á grindinni fyrir neðan (ljósmynd 5962). Gera má ráð fyrir að snjóflóðið hefði orðið margfalt stærra, og jafnvel náð niður að heilsugæslunni, ef stoðvirkin hefðu ekki dregið úr snjómagninu sem fór að stað.

Þetta er fyrsta dæmið hér á landi um að stoðvirki á upptakasvæðum hafi komið í veg fyrir eða dregið úr stærð snjóflóðs.

Stoðvirki hafa á undanförnum árum verið reist ofan byggðar til þess að draga úr snjóflóðahættu í Neskaupstað og á Siglufirði, auk Ólafsvíkur. Stoðvirki eru algengasta snjóflóðavörn fyrir byggð í Alpalöndum en ekki er mikil reynsla af þeim við íslenskar aðstæður. Á næstu árum er fyrirhugað að reisa umfangsmikil stoðvirki hér á landi, m.a. á Ísafirði og Siglufirði.

Á myndinni sést brotfleki snjóflóðs sem farið hefur af stað en staðnæmst á stoðvirkjum áður en hann náði að brotna upp að ráði. Ljósmynd: Tómas Jóhannesson.

 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica