Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í febrúar 2012
Jarðskjálftar á Íslandi í febrúar 2012

Jarðskjálftar á Íslandi í febrúar 2012

15.3.2012

Í febrúarmánuði voru staðsettir alls 1196 jarðskjálftar. Þeir stærstu mældust Ml 3,7 úti fyrir mynni Eyjafjarðar og Ml 3,5 við Eldeyjarboða. Nokkrir skjálftar voru staðsettir suður á Reykjaneshrygg og norður á Kolbeinseyjarhrygg

Á Reykjaneshrygg og Reykjanesskaga að Hengli voru staðsettir alls 418 jarðskjálftar í febrúar. Alls voru staðsettir 85 skjálftar í öflugri skjálftahrinu við Eldeyjarboða á Reykjaneshrygg. Skjálftarnir voru á stærðarbilinu Ml 1,6-3,5. stærsti skjálftinn mældist Ml 3,5. Alls fjórtán skjálftar voru Ml 2,8. Á Reykjanesskaganum mældust 33 skjálftar flestir við Kleifarvatn en tveir smáskjálftar mældust austan við Helgafell, þann 21. og 23. febrúar. Á Hengilssvæðinu voru staðsettir 301 skjálfti og var langmesta virknin við Húsmúla, stærsti Ml 2,5. Flestir skjálftarnir við Húsmúla, eða 180, urðu í skjálftahrinu í viku 8. Sjálftarnir í hrinunni voru þó flestir smáir, sá stærsti Ml 1,9.

Á Norðurlandi voru alls staðsettir 318 skjálftar, þar af tæplega 200 við Grímsey. Stærsti skjálfti mánaðarins (Ml 3.7) varð um það bil 10 kílómetrum norðvestur af Gjögurtá að kvöldi hlaupárdags. Í kjölfarið fylgdu 60 eftirskjálftar fram á næsta kvöld, þar af einn sem varð fimm mínútum eftir þann stærsta og var hann Ml 2,8 að stærð. Stærsti skjálftinn fannst meðal annars á Ólafsfirði, Siglufirði, Dalvík og í Svarfaðardal. Skjálftarnir við Grímsey komu í hrinum milli 11. og 16. febrúar og voru allt að Ml 2.7 að stærð. Í Öxarfirði mældust 47 skjálftar (Ml 0.3-1.8), en ekki var um neinar hrinur að ræða. Á Kröflusvæðinu mældust 14 skjálftar, allir fremur smáir (Ml <1.2). Einn skjálfti af stærð Ml 2.5 varð í Fljótum á norðanverðum Tröllaskaga þann 6.febrúar. Þann 25. febrúar mældist skjálfti af stærð Ml 1,2 norðan Hofsjökuls.

Undir Mýrdalsjökli voru staðsettir 216 jarðskjálftar, þar af mældust 20 við Hafursárjökul, um 140 innan Kötluöskjunnar og um 40 við Goðaland. Einn smáskjálfti mældist í Eyjafjallajökli við rætur Gígjökuls. Stærsti skjálftinn, af stærð Ml 2,4, mældist í vestanverðri Kötluöskjunni. Á Torfajökulssvæðinu voru staðsettir um 40 skjálftar, sá stærsti af stærð Ml 1,6. Einn skjáfti af stærð Ml 1,1 mældist undir Heklu.

Undir Vatnajökli voru staðsettir 57 jarðskjálftar. Sá stærsti af stærð Ml 1,4 mældist við Gæsahnjúk, norðan Bárðarbungu, en á því svæði voru alls staðsettir 16 skjálftar. Í Kverkfjöllum mældust átta skjálftar, sá stærsti Ml 1,3. Austan við Bárðarbungu mældust 18 jarðskjálftar, um helmingur þeirra á fimm mínútum í óróahviðu þann 3. febrúar, en hinir á tímabilinu 16.-29. febrúar. Á Lokahrygg mældust 12 skjálftar og tveir smáskjálftar mældust vestan við Tungnárjökul. Einn smáskjálfti mældist við Skeiðarárjökul og annar upp af Morsárjökli.

Á hálendinu norðan Vatnajökuls voru staðsettir 46 jarðskjálftar. Sá stærsti, Ml 2,3, mældist við Flötudyngju, vestan Herðubreiðar, en þar voru alls sex skjálftar staðsettir. Tveir skjálftar urðu norður við Herðubreiðarfjöll og 6 skjálftar austan við Öskjuvatn, en annars var virknin nokkuð dreifð.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica