Tíðarfar í febrúar 2012
Stutt yfirlit
Mánuðurinn var mjög umhleypingasamur og hlýr. Hlýindin voru að tiltölu mest austanlands þar sem hiti á Fljótsdalshéraði var meira en 4 stigum ofan meðallags. Úrkoma var mikil um allt sunnan- og vestanvert landið og var á stöku stöð meiri heldur en hún hefur áður mælst í febrúar.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík var 2,6 stig og er það 2,2 stigum ofan við meðallag. Þetta er áttundi hlýjasti febrúar sem vitað er um í Reykjavík. Á Akureyri var meðalhitinn 2,3 stig, 3,8 stigum ofan við meðallag og er mánuðurinn sá fimmti hlýjasti frá upphafi samfelldra mælinga á Akureyri. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 3,7 stig og -2,4 á Hveravöllum. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu, þar má einnig sjá röð hita mánaðarins frá þeim hlýjasta talið. Meðalhiti í febrúar hefur aldrei orðið jafnhár eða hærri á Egilsstöðum en nú.
stöð | hiti | vik | röð | af |
Reykjavík | 2,6 | 2,2 | 8 | 142 |
Stykkishólmur | 2,0 | 2,7 | 6 til 8 | 167 |
Bolungarvík | 1,4 | 2,4 | 11 | 115 |
Akureyri | 2,3 | 3,8 | 5 | 131 |
Egilsstaðir | 2,5 | 4,4 | 1 | 57 |
Dalatangi | 3,8 | 3,2 | 1 til 2 | 73 |
Teigarhorn | 3,4 | 3,1 | 5 | 140 |
Höfn í Hornaf. | 3,7 | 3,1 | ||
Kirkjubæjarklaustur | 2,0 | 1,8 | 12 | 86 |
Árnes | 1,4 | 2,4 | [10] | [131] |
Stórhöfði | 3,6 | 1,6 | 11 | 135 |
Hveravellir | -2,4 | 3,6 | 2 | 47 |
Hæsti meðalhiti mánaðarins mældist í Surtsey, 4,6 stig, þar á eftir komu Vestmannaeyjabær og Kvísker með 4,1 stig. Lægstur var meðalhitinn á Þverfjalli -4,0 stig, næstlægstur var meðalhitinn í Sandbúðum, -3,8 stig. Lægsti meðalhiti í byggð var -1,0 stig í Svartárkoti.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,8 stig á Teigarhorni þann 14. Á mannaðri stöð mældist hæsti hitinn á Sauðanesvita þann 7., 13,4 stig. Lægsti hiti mánaðarins mældist á Sátu þann 18. og á Setri þann 20., -18,2 stig. Mest frost í byggð mældist við Mývatn þann 20., -15,9 stig.
Lægsta lágmark á mannaðri stöð mældist -11,7 stig. Það var í Stafholtsey þann 18.
Eitt dægurlandshámarkshitamet var slegið í mánuðinum þegar hiti fór í 14,8 stig á Teigarhorni við Berufjörð þann 14. Gamla metið var 13,0 og var sett á Sandi í Aðaldal 2004.
Úrkoma
Mjög úrkomusamt var á Suður- og Vesturlandi en úrkoma í meðallagi eða lítillega minni en það um landið norðaustanvert.
Í Reykjavík mældist úrkoman 135 mm og er það um 90% umfram meðallag. Úrkoma í febrúar hefur alloft mælst meiri en þetta í febrúar, síðast 2008. Úrkoma mældist 40,2 mm á Akureyri og má það heita í meðallagi. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 161 mm.
Endanlegt uppgjör liggur ekki fyrir víðar en svo virðist sem mánaðarúrkomumet fyrir febrúar hafi verið slegin á nokkrum stöðvum. Á stöðvum sem athugað hafa í 20 ár eða meira var meiri úrkoma í febrúar nú heldur en dæmi eru um áður: Í Stafholtsey, á Brekku í Norðurárdal, Hjarðarfelli á Snæfellsnesi, Vík í Mýrdal, Vatnsskarðshólum og Hjarðarlandi í Biskupstungum. Í Vík hefur úrkoma verið mæld linnulítið frá 1926.
Úrkomudagar voru sérlega margir, 28 í Reykjavík, allir nema einn. Hafa úrkomudagar einu sinni orðið jafnmargir í Reykjavík í febrúar. Það var 1981. Þá var hins vegar ekki hlaupár og úrkoma mældist þar með alla daga mánaðarins - sjónarmunur er því á þessum mánuðum tveimur - 1981 telst með flesta úrkomudaga í febrúar.
Snjóalög
Fremur snjólétt var á landinu lengst af. Alhvítir dagar voru sjö í Reykjavík og er það þremur dögum færri en í meðalári (1961 til 1990). Á Akureyri voru alhvítu dagarnir einnig sjö og er það 13 dögum undir meðallagi.
Vindhraði
Vindhraði í byggð var rétt undir meðallagi í mánuðinum. Bráðabirgðaniðurstöður virðast gefa til kynna að mesti 10-mínútna meðalvindhraði hafi mælst á Gagnheiði þann 14., 33,7 m/s, en mesta hviða hafi mælst á Miðfitjahól á Skarðsheiði þann 2., 55,4 m/s.
Sólskinsstundir
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 37,1 og er það 15 stundum undir meðallagi. Ámóta sólarlítið var síðast 2005. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 38,6 og er það tveimur stundum yfir meðallagi.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1003,7 hPa og er það 1,1 hPa yfir meðallagi. Lægsti þrýstingur mánaðarins mældist 971,1 hPa á Stórhöfða þann 23. en hæstur á Keflavíkurflugvelli þann 13., 1030,3 hPa.
Fyrstu tveir mánuðir ársins
Fyrstu tveir mánuðir ársins hafa verið hlýir, þó var hlýrra þessa tvo mánuði í Reykjavík í fyrra (2011) en á Akureyri var síðast hlýrra 2006.
Úrkoma hefur verið óvenjumikil. Heildarúrkomumagn í Reykjavík við lok mánaðarins var um 35 prósent af meðalársúrkomu 1961 til 1990 - nærri tvöfalt það sem er í meðalári. Úrkoma var 20 mm meiri í Reykjavík í þessum mánuðum 1991 heldur en nú. Metið er hins vegar frá 1921, þá mældist úrkoma fyrstu tvo mánuði ársins 41 prósent af ársmeðalúrkomu 1961 til 1990.