Fréttir
vefsíða

Niðurstöður fyrir Veðurstofu Íslands í úttekt um opinbera vefi

Hvað er spunnið í opinbera vefi

13.2.2012

Í lok síðasta árs stóð innanríkisráðuneytið fyrir úttektinni Hvað er spunnið í opinbera vefi 2011. Niðurstöðurnar voru birtar fyrir skömmu. Þetta er í fjórða skipti sem sambærileg úttekt er gerð, áður hafa þær verið gerðar 2005, 2007 og 2009.

Markmið úttektarinnar kemur fram í skýrslu um hana:

Markmið úttektarinnar er að meta hvernig vefir hins opinbera uppfylla kröfur um innihald, nytsemi, aðgengi og þjónustu, gefa stofnunum möguleika á að bera sig saman við aðra sambærilega aðila og gefa upplýsingar um hvernig staða rafrænnar þjónustu er á vefjum hins opinbera.

Niðurstöðunum er skipt upp í Innihald, Nytsemi, Aðgengi, Þjónustu og Lýðræði. (Sjá nánar í skýrslu um úttektina). Þetta er í fyrsta skipti sem Lýðræðishlutinn er mældur. Aðrir þættir voru einnig mældir í fyrri úttektum.

Niðurstöður fyrir Veðurstofu Íslands voru:

  • Innihald: 94 af 100
  • Nytsemi: 100 af 100
  • Aðgengi: 22 af 100
  • Þjónusta: 35 af 100
  • Lýðræði: 50 af 100

línurit

Það er ánægjulegt að sjá að Veðurstofan fær mjög háa stigagjöf fyrir innihald og nytsemi, enda skipta þessir þættir notendur okkar mestu máli. Lág stigagjöf fyrir þjónustu kemur ekki á óvart því þar eru skoðuð gagnvirk eyðublöð, rafræn málsmeðferð og ýmis þjónusta sem ekki er mikil þörf á hjá Veðurstofunni. Í ljósi frekar lágrar stigagjafar fyrir lýðræði mætti athuga hvort ástæða er til að auðvelda notendum að koma málefnum sínum á framfæri.

Lág stigagjöf fyrir aðgengi kemur mikið á óvart. Þarna er aðgengi allra notenda skoðað, blindra, sjóndapra, fatlaðra o.s.frv. Núverandi vefur Veðurstofunnar fór í loftið 2007 og fékk þá fullt hús stiga fyrir aðgengi, sömuleiðis árið 2009. Nú fær hann einungis 22% þótt vefurinn hafi lítið breyst. Hér því hægt að draga þá ályktun, að um breyttar áherslur sé að ræða hjá innanríkisráðuneytinu.

Við útfærslu núverandi vefs fór mikil vinna í að gera aðgengið sem best. Unnið var náið með Hugsmiðjunni og Sjá að öllum þáttum aðgengismála. Sem dæmi mætti nefna að talsverð vinna fór í að gera staðarspákortin aðgengileg í skjálesurum sem blindir nota. Áður en vefurinn var formlega opnaður var hann settur í aðgengisvottun Sjá og Öryrkjabandalagsins og hlaut þar forgang II.

Við mat á aðgengi í úttekt innanríksráðuneytisins er horft fram hjá aðgengisvottuninni og því hvernig vefurinn kemur í raun út í skjálesurum. Notuð voru sjálfvirk greiningartól sem reyna á aðra og einfaldari þætti. (Sjá einnig umfjöllun Hugsmiðjunnar um aðgengisúttektina.)

Vefur Veðurstofunnar er opinber ríkisvefur sem er mjög mikið notaður. Starfsmönnum Veðurstofunnar er umhugað um að þjóna notendum sínum sem best og við tökum að sjálfsögðu til umhugsunar þær ábendingar sem felast í úttektinni.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica