Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í janúar 2012
Jarðskjálftar á Íslandi í janúar 2012

Jarðskjálftar í janúar 2012

9.2.2012

Í janúar mældust um 850 jarðskjálftar með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands. Flestir áttu upptök við Húsmúla á Hengilssvæðinu en þar mældust um 250 smáskjálftar. Tæplega 150 skjálftar urðu í Mýrdalsjökli, flestir innan Kötluöskjunnar. Stærsti skjálfti mánaðarins varð að kvöldi 3. janúar, Ml 3,9, rétt vestan Krýsuvíkur og fannst víða á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi.

Ellefu jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg, flestir eða sjö rétt vestan við Eldey. Stærstu voru 2,2 stig. Nær allir skjálftar sem mældust á Reykjanesskaga áttu upptök á Krýsuvíkursvæðinu eða um 80 skjálftar. Yfir 50 skjálftar, flestir innan við einn að stærð, mældust í kjölfar Ml 3,9 skjálftans með upptök undir sunnanverðum Sveifluhálsi.

Á Hengilssvæðinu var mesta virknin við Húsmúla eins og undanfarna mánuði. Um 250 smáskjálftar mældust, stærstu um tvö stig. Nokkrir tugir smáskjálfta mældust annars staðar á Hengilssvæðinu, í Ölfusi og Flóa. Á Suðurlandsundirlendinu mældust nokkrir tugir skjálfta, stærstu um tvö stig. Flestir áttu upptök á Hestvatnssprungunni. Stakur jarðskjálfti mældist við Heklu þann 21. janúar, Ml 0,8 að stærð. GPS- og þenslumælingar sýndu engar breytingar við Heklu á þessum tíma.

Undir og við Vatnajökul mældust 32 jarðskjálftar. Um helmingur þeirra átti upptök undir Lokahrygg og flestir hinna voru við Kistufell og norðaustan í Bárðarbungu. Stærsti jarðskjálftinn á svæðinu var 2,4 stig með upptök við Kistufell. Við Öskju mældust fimm jarðskjálftar og 15 við Herðubreið, allir minni en 1,6 að stærð. Við Hlaupfell, norður af Upptyppingum, mældust 33 jarðskjálftar og urðu flestir þeirra á tímabilinu 13.-15. janúar. Stærsti skjálftinn þar var 1,8 stig. Við suðurbrún landgrunnsins á móts við Breiðamerkurdjúp mældust 12 jarðskjálftar. Flestir þeirra urðu að kvöldi þess 13. janúar og mældist stærsti skjálftinn 2,7 stig.

Heldur dró úr skjálftavirkninni í Mýrdalsjökli í mánuðinum miðað við undanfarna mánuði, en um 140 skjálftar mældust í jöklinum, þar af voru um 85 innan Kötluöskjunnar. Stærstu skjálftarnir voru um Ml 2 að stærð. Á Torfajökulssvæðinu mældust 27 skjálftar. Allt voru þetta mjög litlir skjálftar, stærstu rétt um Ml 1 að stærð. Í Langjökli og næsta nágrenni mældust alls átta skjálftar. Einn skjálfti mældist í vestanverðum Hofsjökli og annar um 20 kílómetra norður af Hofsjökli. Allt voru þetta frekar litlir skjálftar en þeir stærstu mældust rétt norðan við Geitlandsjökul í suðvesturhluta Langjökuls og voru þeir rétt rúmlega Ml 2 að stærð.

Í nágrenni Kröfluvirkjunar mældust fimm skjálftar og þrír við Þeistareyki, einn undir Vaglafjalli sunnan Ljósavatnsskarðs og tveir undir Lágheiði. Fyrir norðan land mældust 111 jarðskjálftar, flestir í Öxarfirði og austan við Grímsey. Stærsti skjálftinn varð klukkan 21:46 þann 3. janúar um 26 kílómetra austur af Grímsey, 2.9 að stærð.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica