Glitský líkleg
Líkur eru á því að glitský sjáist nú við sólarlag og hugsanlega aftur við sólarupprás í fyrramálið (föstudagskvöld og laugardagsmorgun).
Hringt var af Borgarfirði eystra nú í dag og sagt frá óvanalega fallegum skýjum með litbrigðum og er þar hugsanlega um glitský að ræða.
Veðurstofan þiggur gjarna ljósmyndir af fyrirbærinu á netfangið <myndir@vedur.is>. Talið er að óvenjuleg þynning ósonlagsins yfir Grænlandi um þessar mundir auki líkur á glitskýjum.
Glitský sjást aldrei á nóttunni. Þau sjást best í kringum sólarupprás og sólarlag í tvær til tvær og hálfa klukkustund. Á þessum árstíma eru þrjár klukkustundir eftir sólarlag um kl.18.
Þær skýjamyndir sem sáust á austurlofti í Reykjavík um ellefuleytið í morgun (9.12.2011) og aftur í sólarátt síðdegis hurfu snögglega og því voru þetta líklega aðeins þunnar skýjaslæður við veðrahvörfin.
Við veðrahvörfin er ekki nægilega kalt til þess að glitský myndist. Nægilega kalt er hins vegar uppi í 24 km hæð þar sem ósoneyðingin er. Glitský sem sjást hér á landi eru tveggja tegunda og það sem hugsanlega sést nú, væri sú sjaldgæfari.
Ljósmyndir af glitskýjum má skoða í eldri frétt hér á vefnum. Fróðleik um glitský er að finna í pistlunum Hvað eru glitský?, Árstíðasveifla glitskýja og Glitský á 17. öld.