Fréttir
modis_220608_1405_250m_crop1
Gervitunglamynd (Modis) 22. júní 2008.

Vöktun freðhvolfsins

Framkvæmdaáætlun GCW hefst í Genf

22.11.2011

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, er nú staddur á fyrsta fundi um framkvæmdaáætlun GCW, Global Cryosphere Watch, en það er nýlegt samstarf innan Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) um vöktun á freðhvolfinu. Fundurinn stendur yfir dagana 21. - 24. nóvember 2011.

Hugtakið freðhvolf vísar til vatns á föstu formi, hvar sem það finnst á jörðunni, sem ís, snjór eða hafís.

GCW er eitt af verkefnum þess ráðs er fer með heimskautarannsóknir innan Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar og er Veðurstofan fulltrúi Íslands í þeim hópi (Panel on Polar Observations, Research and Services, EC-PORS).

Nokkrir starfsmenn Veðurstofunnar hafa tekið þátt í undirbúningi þessa verkefnis. Aðstæður hérlendis eru um margt ákjósanlegar til vöktunar á freðhvolfinu, líkt og varðandi jarðskjálfta, eldgos og endurnýjanlegar orkulindir. Einnig gæti sérþekking íslenskra fræðimanna nýst vel við skipulag framkvæmdaáætlunar GCW.

Vonir standa til þess að GWC auðveldi bæði rannsóknaraðilum og þeim sem starfa á norðurslóðum að koma upp safni áreiðanlegra gagna svo hægt verði að spá fyrir um framtíð freðhvolfsins með meiri vissu.

Nánar má lesa á enskum vef Veðurstofunnar um bakgrunn GCW og hinar mörgu myndir frosins vatns á jörðunni.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica