Fréttir
ský
Netjuskýjauppsláttur.

Tíðarfar í október 2011

Stutt yfirlit

1.11.2011

Októbermánuður var fremur hlýr um mestallt land, hlýjastur að tiltölu austanlands en svalastur á Vestfjörðum. Úrkomusamt var í flestum landshlutum og óvenjumikil úrkoma var á fáeinum veðurstöðvum.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 5,0 stig og er það 0,6 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en í meðallagi síðasta áratugar. Meðalhiti á Akureyri var 3,4 stig og er það 0,4 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhiti 5,7 stig, 1,2 stigi hærra en í meðalári. Á Hveravöllum var meðalhitinn -0,7 stig og er það 0,5 stigum ofan meðallags.

Að tiltölu varð hlýjast á Fljótsdalshéraði, hiti á Egilsstöðum 2,2 stigum ofan meðallags, en kaldast var að tiltölu á Vestfjörðum, hiti 0,2 stigum undir meðallagi í Bolungarvík. Meðalhita nokkurra stöðva má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 5,0 0,6 47 141
Stykkishólmur 4,4 0,5 63 166
Bolungarvík 3,3 -0,2 64 114
Akureyri 3,4 0,4 59 130
Egilsstaðir 5,3 2,2 5 56
Dalatangi 5,5 1,0 5 til 6 73
Teigarhorn v v
Höfn í Hornafirði 5,7 1,2
Kirkjubæjarklaustur 5,3 0,8
Hæll 4,5 1,0 29 131
Stórhöfði 5,8 0,7 34 135
Hveravellir  -0,7 0,5 23 47

Hæstur varð meðalhiti í mánuðinum í Surtsey, 6,8 stig, en lægstur á Þverfjalli, -2,4 stig. Lægsti meðalhiti í byggð var í Svartárkoti og í Möðrudal, 0,6 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þann 13., 18,0 stig. Sama dag mældist hæsti hiti á sjálfvirkri veðurstöð, 17,3 stig. Það var í Bjarnarey.

Lægsti hiti mánaðarins mældist -12,2 stig. Það var á Brúarjökli þann 7. Lægsti hiti í byggð mældist í Svartárkoti sama dag, -11,2 stig. Lægstur hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum að morgni þess 8., -8,0 stig.

Úrkoma

Mánuðurinn var úrkomusamur. Í Reykjavík mældist úrkoman 104,3 mm og er það 22% umfram meðallag. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 70% umfram meðallag, enn meiri var úrkoman þó í október 2007. Á Akureyri mældist meira en tvöföld meðalúrkoma, alls komu 145,2 mm í mælinn. Þetta er meira en tvöföld meðalúrkoma októbermánaðar og sú næstmesta frá upphafi mælinga 1927. Heldur meiri úrkoma mældist á Akureyri í október 1995. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 259,5 mm. Það er 65% umfram meðallag. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoman 56% umfram meðallag.

Mánaðarúrkomumet voru slegin á nokkrum stöðvum, af þeim stöðvum sem lengi hafa athugað má nefna Æðey (athuganir í október aftur til 1954), Hraun á Skaga (athuganir aftur til 1956), Tjörn í Svarfaðardal (athuganir aftur til 1969) og á Grímsstöðum á Fjöllum (samfelldar úrkomumælingar frá og með 1936). Þetta eru allt stöðvar þar sem úrkoma er oftast fremur lítil og er væntanlega til marks um að loftstraumar hafi verið eitthvað óvenjulegir. Endanlegt uppgjör úrkomumælinga mánaðarins liggur þó ekki fyrir.

Vindhraði

Vindhraði var 0,7 m/s ofan við meðallag og var meðalvindhraði í mánuðinum sá mesti í október frá 1995 að telja á mönnuðu stöðvunum. Á sjálfvirkum stöðvum í byggð var meðalvindhraði meiri en nú í október 2007. Þótt meðalvindhraði hafi verið með meira móti getur mánuðurinn varla talist illviðrasamur í heild.

Sólskinsstundir

Í Reykjavík mældust 100,7 sólskinsstundir í október og er það rúmum 17 stundum yfir meðallagi. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 43,1 og er það 8 stundum undir meðallagi.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 994,2 hPa eða 9,1 hPa undir meðallagi. Þetta er í lægra lagi og hefur mánðarmeðalþrýstingur í október ekki verið svona lágur síðan árið 2000, síðan þarf að fara allt aftur til október 1963 til að finna ámóta lágan meðalþrýsting í október.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist á Höfn í Hornafirði þann 12. 1019,4 hPa. Lægstur varð þrýstingurinn á Dalatanga þann 3., 972,8 hPa.

Fyrstu tíu mánuðir ársins

Meðalhiti fyrstu 10 mánaða ársins í Reykjavík er 6,2 stig og er það um 1,1 stigi hlýrra en í meðalári 1961 til 1990, en nákvæmlega í meðallagi miðað við 2001 til 2010. Í Stykkishólmi er meðaltal fyrstu 10 mánaða ársins 1,0 stigi ofan meðallagsins 1961 til 1990, en 0,2 stigum undir meðallagi ef miðað er við 2001 til 2010. Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 10 mánuði ársins 0,8 stigum ofan meðallags 1961 til 1990, en 0,2 stigum undir sé miðað við 2001 til 2010.

Í Reykjavík er úrkoma fyrstu 10 mánaða ársins um 14% ofan meðallags, en 33% yfir því á Akureyri.

Sólskinsstundir fyrstu 10 mánuði ársins hafa mælst 199 fleiri en í meðalári. Er það mjög í anda þess sem verið hefur síðustu 8 árin en mun meira heldur en var venjulegt á árum áður. Fell við Breiðamerkurjökul

Fell, austan við Breiðamerkurjökul, hinn 24. október 2011. Undir Felli var samnefnt býli og sjást tóftarbrotin enn. Ljósmynd: Kristín Hermannsdóttir.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica