Fréttir
Advances

Bók um jarðskjálftaspár

6.10.2011

Advances in Earthquake Prediction: Research and Risk Mitigation er heiti á nýútkominni bók eftir Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðing. Forlögin Springer og Praxis gáfu bókina út. Hún er 245 síður og með fjölda skýringarmynda.

Í bókinni lýsir höfundur niðurstöðum alþjóðlegra rannsóknarverkefna á sviði jarðskjálftaspár þar sem rannsóknarsvæðið er Ísland, sérstaklega Suðurlandsbrotabeltið. Meðal helstu niðurstaðna bókarinnar er að með góðu og samfelldu jarðváreftirliti megi vara á gagnlegan hátt við stórum jarðskjálftum á Íslandi. Auk þess að lýsa niðurstöðum spárannsóknanna fjallar bókin um alþjóðlega umræðu um möguleika jarðskjálftaspár, um plötuskilin á Íslandi, viðvaranir vegna jarðskjálfta og eldgosa og hvernig nýta mætti reynslu úr rannsóknunum til viðvarana, á Íslandi og um allan heim.

Ragnar leiddi um áratugaskeið þá vinnu á Veðurstofu Íslands sem er grundvöllur þessarar bókar. Hann stjórnaði sem slíkur fjórum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum á sviði jarðskjálftaspár á tímabilinu 1988-2006 og hlutu þau háa styrki úr alþjóðlegum sjóðum.

SIL-jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar var byggt upp sem hluti af þessum spárannsóknum. Það hefur verið ómetanlegt, t.d. í sambandi við eldsumbrotin 2010 og 2011, eins og landsmenn fylgdust með. Hið sama má segja um þenslu- og samfelldu GPS-mælingarnar.

Samstarfsfólk Ragnars á Veðurstofunni óskar honum til hamingju með þetta mikla verk sem mun nýtast vísindamönnum Veðurstofunnar, sem og öðrum sem vinna að jarðskjálftarannsóknum víða um heim.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica