Skjálftahrinan í Mýrdalsjökli
Upp úr kl 2:50 hófst snörp skjálftahrina í Mýrdalsjökli og rúmri klukkustund síðar varð önnur heldur minni og þriðja hrinan, enn minni, fylgdi fljótlega í kjölfarið. Eftir það hafa stakir skjálftar mælst en tíðni þeirra hefur minnkað verulega.
Skjálftahrinurnar voru í norðaustanverðri Kötluöskjunni, rétt sunnan við Austmannsbungu. Um 20 skjálftar voru stærri en 2 stig og þar af nokkrir stærri en 3 stig. Enginn órói fylgdi þessum hrinum. Aukin virkni hefur verið í Mýrdalsjökli undanfarna mánuði en þetta er snarpasta hrinan hingað til. Ekki eru vísbendingar um að meiri virkni fylgi í kjölfarið að svo stöddu en vel er fylgst með virkni í Mýrdalsjökli. Ætíð má skoða núverandi virkni hér á vefnum.
Hér fyrir neðan er yfirlitsmynd af skjálftavirkni í Mýrdalsjökli 1999 til 2011.
Benedikt Gunnar Ófeigsson og Matthew J. Roberts lögðu til efni í þessa frétt.