Vel sótt Vísindavaka
Vísindavaka RANNÍS fór fram föstudaginn 23. september og var að þessu sinni í samstarfi við Háskóla Íslands í tilefni 100 ára afmælis hans. Veðurstofan tók þátt í vökunni undir yfirskriftinni „Veðurstofa Íslands - vöktunarmiðstöð eldfjalla”.
Sýnt var á skjá hvernig færanleg veðursjá mælir dreifingu ösku í andrúmslofti.
Jökulhlaup, hæð gosmakkar úr eldgosinu í Eyjafjallajökli og eldfjallavöktun Veðurstofunnar var sýnt á veggspjöldum. Og auðvitað fengu bæði börn og fullorðnir að spreyta sig á blása í vindhraðamæli og sjá hversu miklum vindhraða þau náðu.
Veðursjáin var til sýnis utandyra, en hún er hluti þess búnaðar sem stofnunin hefur yfir að ráða til þess að fylgjast með og vakta eldfjöll. Um næstu áramót mun Veðurstofan eignast sína eigin færanlegu veðursjá, sams konar og þá sem var til sýnis, en hún er að láni frá ítölsku almannavörnunum.
Stutt myndskeið sýndu ösku úr eldgosinu í Grímsvötnum síðastliðið vor og einnig ryk- og öskufjúk nú í september.
Vel tókst til og þakkar Veðurstofan öllum þeim sem sýndu verkefnum stofnunarinnar áhuga. Hér svarar Benedikt Gunnar Ófeigsson spurningum áhugasamra gesta. Ljósm.: Guðrún Pálsdóttir.