GPS- og skjálftamælar á Mýrdalsjökli
Miðvikudaginn 14. september 2011 fóru starfsmenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans á Mýrdalsjökul til að yfirfara tækjabúnað fyrir veturinn. GPS mælar á vegum þessara stofnana, og skjálftamælar sem settir voru niður í tengslum við rannsóknarverkefnið Volcano Anatomy, hafa safnað gögnum uppi á jöklinum um skeið.
Landhelgisgæslan flaug með búnaðinn og hluta af mannskapnum upp á Entu sem er norðan við Kötluöskjuna. Þar voru settir niður rafgeymar og komið á samskiptum við skjálftastöðina. Ekki þurfti að skipta um búnað á GPS stöðinni. Síðan var farið á Austmannsbungu sem er við norðaustanverðan öskjurimann. Þar var komið á samskiptum við skjálftastöðina og streyma nú rauntímagögn til Veðurstofunnar frá báðum þessum stöðvum. Unnið er að því að koma skjálftagögnunum inn í jarðskjálftamælakerfi Veðurstofunnar og munu þau nýtast vel við staðsetningu skjálfta í Kötlu.
Tækjabúnaður á Austmannsbungu í Mýrdalsjökli. Myndina tók Martin Hensch.