Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í ágúst 2011
Jarðskjálftar á Íslandi í ágúst 2011

Jarðskjálftar á Íslandi í ágúst 2011

15.9.2011

Undir Mýrdalsjökli voru staðsettir rúmlega 400 jarðskjálftar. Þar af voru 156 skjálftar undir Kötluöskjunni, 119 skjálftar undir vesturhluta jökulsins og 126 smáskjálftar við Hafursárjökul suður af öskjunni. Stærsti skjálftinn, rúmlega 3 að stærð var þann 19. ágúst kl. 02:25 með upptök í norðaustanverðri öskjunni, við Austmannsbungu. Upptök skjálftanna innan öskjunnar voru aðallega í 3 þyrpingum, norðaustan til, sunnanvert við sigketil númer 16 og vestanvert við sigkatla númer 5 og 6. Sunnudaginn 28. ágúst milli kl. 11-13 var skjálftahrina á um 5 km dýpi við vestanverðan jökulinn. Alls mældust 27 skjálftar í hrinunni, sá stærsti 2,1 stig. Jarðskjálftarnir við Hafursárjökul sunnan öskjunnar voru allir minni en 1 að stærð og allir með upptök við yfirborð. Undir Eyjafjallajökli mældust 3 smáskjálftar og voru þeir allir minni en 0,5 að stærð.

Starfsmenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans fóru í gær (14. september) á Mýrdalsjökul, með aðstoð Landhelgisgæslunnar, til að undirbúa GPS- og skjálftamæla fyrir veturinn.

Tæplega 30 jarðskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu og voru allir undir 2 að stærð. Í og við sunnanverðan Langjökul voru 11 jarðskjálftar. Sá stærsti mældist 3,3 stig þann 20. ágúst kl. 16:02 með upptök við hábungu jökulsins. Sunnan við Blöndulón mældust 7 jarðskjálftar og sá stærsti var 2,3 að stærð.

Fremur rólegt var undir Vatnajökli í ágúst. Einhver skjálftavirkni var við Kistufell, Bárðarbungu og Kverkfjöll, en skjálftarnir voru fáir og smáir (stærsti 2,1 stig). Dagana 21. - 24. ágúst mældust átta skjálftar suðaustur af Hvannadalshnjúk, stærsti 2,2 stig. Frá upphafi stafrænna skjálftamælinga (1991) hafa mælst á sjötta tug skjálfta í Öræfajökli og í næsta nágrenni. Ef aðeins er skoðuð skjálftavirkni innan öskjunnar eru skjálftarnir þar tæplega þrjátíu talsins og hafa þeir ýmist orðið stakir, tveir og tveir eða hrina nokkurra skjálfta eins og nú. Aðrar slíkar hrinur urðu í desember 2005 og september 2008.

Það var einnig rólegt á svæðinu norðan Vatnajökuls. Nokkur skjálftavirkni var við Öskju og Herðubreið, en annars voru skjálftar fáir og dreifðir. Stærsti skjálftinn var 2,7 stig með upptök austan við Herðubreið.

Um 300 skjálftar mældust norðan við land á Tjörnesbrotabeltinu. Um 90 áttu upptök norður af Tröllaskaga um 40 km vestur af Grímsey, en þar varð hrina dagana 9. - 13. ágúst. Stærsti skjálftinn var 3,0 stig, aðrir 2,7 og minni. Einnig var nokkur hreyfing nær landi úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Þann 11. ágúst mældist rúmur tugur skjálfta á innan við klukkutíma, um 40 km norðnorðvestur af Grímsey. Sá stærsti var 2,9 að stærð. Þá tíndust inn jafnt og þétt allan mánuðinn um 40 skjálftar undir Öxarfirði miðjum, sá stærsti var 2,2 stig. Nokkrir dreifðir smáskjálftar voru beggja vegna Eyjafjarðar, nokkrir við Þeistareyki, sá stærsti 1,5 stig og við Kröflu mældust einnig nokkrir smáskjálftar.

Á fjórða tug skjálfta voru staðsettir á Reykjaneshrygg, flestir þeirra 3.-5. ágúst og tveir stærstu skjálftarnir voru 3,2 og 3,7 að stærð. Á Reykjanesskaganum bar mest á skjálftahrinum við Kleifarvatn og Grindavík. Á fimmta tug skjálfta, urðu austan og norðaustan Grindavíkur, flestir dagana 15.-18. ágúst. Nokkrir stærstu skjálftanna fundust vel í Grindavík þar sem innanstokksmunir hristust. Stærstu skjálftarnir urðu þriðjudagskvöldið 16.ágúst (kl.22:14, 3,4 stig), aðfararnótt miðvikudags 17. ágúst (kl.01:16, 2,9 stig, kl. 01:34, 3,2 stig) og á miðvikudagskvöld (kl.23:19, 2,6 stig). Ein tilkynning barst jafnframt um að skjálftinn á miðvikudagkvöld hafi fundist í túnunum í Garðabæ.

216 skjálftar voru staðsettir í nágrenni Krýsuvíkur og Kleifarvatns, um helmingur þeirra varð 12. ágúst rétt norðan Stefánshöfða. Stærsti skjálftinn var 3,1 að stærð og varð hans vart víða á höfuðborgarsvæðinu. Önnur þyrping skjálfta var staðsett undir austurströnd vatnsins í kringum 3. ágúst, stærsti skjálftinn þar mældist 2,9 stig. Einn skjálfti var staðsettur á Selvogsbanka (um 27 km sunnan Selvogs) og einn rétt vestan Heimaeyjar (á 15,6 km dýpi).

Á Suðurlandi, frá Hjallahverfi í Ölfusi og austur að Heklu, voru staðsettir á milli 180 og 190 skjálftar. Flestir þeirra voru staðsettir vestan Selfoss, þar af voru ríflega 30 eftirskjálftar á suðurhluta Krosssprungunnar frá maí 2008, skjálftar í Hjallahverfi og á Ingólfsfjallsprungu (einnig frá 2008). Sautján skjálftar voru einnig staðsettir á Hestvatnssprungunni frá 21. júní 2000, þrír nærri gömlu Selsundssprungunni (frá 1912). Stakur skjálfti var staðsettur (á 10 km dýpi) í Vatnafjöllum, sunnan Heklu og þrír skjálftar voru einnig staðsettir 2,5-6,5 km norður af Þykkvabæ, allir litlir.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica