Hlaup úr eystri Skaftárkatli ekki komið fram
Hlaup úr eystri Skaftárkatli hefur enn ekki komið fram í auknu rennsli í Skaftá. Hlaup úr vestari Skaftárkatli hefur ekki gengið alveg niður og rennsli árinnar er því töluvert meira en í "venjulegu" sumarrennsli. Áin er mjög gruggug og leiðni vex áfram og því eru áfram sterk teikn um að hlaup sé í vændum.
Á meðan aukið rennsli kemur ekki fram á mæli við Sveinstind er ekki auðvelt að segja til um hvenær hlaupið, ef af verður, muni ná niður í byggð. Aðeins hefur orðið vart við nokkra litla skjálfta við katlana, sem gætu verið ísskjálftar.
Fólki er engu að síður ráðlagt að vera ekki nálægt upptökum Skaftár eða í lægðum meðfram henni vegna mengunar af völdum brennisteinsvetnis en það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi.
Óðinn Þórarinsson og Evgenia Ilyinskaya komu að gerð þessarar fréttar.
Í fróðleiksgrein frá 2009 má lesa um jökulhlaup úr vestari Skaftárkatli; sjá einnig: Bergur Einarsson (2009). Jökulhlaups in Skaftá: A study of a jökulhlaup from the Western Skaftá cauldron in the Vatnajökull ice cap (pdf 6,7 Mb).