Tíðarfar í júlí 2011
Stutt yfirlit
Fremur hlýtt var í júlí 2011 og hiti yfir meðallagi um nær allt land. Kaldast að tiltölu var við Austfirði og austast á Suðausturlandi en hlýjast að tiltölu á Vestfjörðum. Þurrt var um landið norðanvert.
Hitafar
Meðalhiti í Reykjavík var 12,2 stig og er það 1,7 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Mjög hlýtt hefur verið í júlí undanfarin ár og mánuðurinn var sá kaldasti síðan 2006 þrátt fyrir að vera í fjórtánda hlýjasta sæti frá því að samfelldar mælingar hófust 1871. Meðalhiti á Akureyri var 12,0 stig og er það 1,2 stigum yfir meðallagi. Tuttugu og fjórir júlímánuðir hafa verið hlýrri á Akureyri frá því að samfelldar mælingar hófust þar haustið 1881.
Á Höfn i Hornafirði var meðalhitinn 10,3 stig og er það 0,1 stigi undir meðallagi og meðalhiti á Hveravöllum var 8,5 stig, 1,5 stigum yfir meðallagi.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | hiti | vik | röð | af |
Reykjavík | 12,2 | 1,7 | 14 | 141 |
Stykkishólmur | 11,8 | 1,6 | 14 | 166 |
Bolungarvík | 11,3 | 2,3 | 7 | 114 |
Akureyri | 12,0 | 1,4 | 25 | 130 |
Egilsstaðir | 10,5 | 0,2 | 23 | 57 |
Dalatangi | 8,0 | 0,0 | 46 | 73 |
Höfn í Hornaf. | 10,3 | -0,1 | ||
Stórhöfði | 10,6 | 1,0 | 32 til 35 | 135 |
Hæll í Hreppum | 11,9 | 1,3 | 26 til 28 | 132 |
Hveravellir | 8,5 | 1,5 | 16 | 47 |
Meðalhiti í júlí var hæstur á sjálfvirku stöðinni á Þyrli í Hvalfirði 12,6 stig, næsthæstur var hann á Hafnarmelum. Lægstur var mánaðarmeðalhitinn á Brúarjökli, 3,2 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur á Kambanesi 7,7 stig.
Hæsti hiti í mánuðinum mældist 24,8 stig á Húsavík þann 27. Á mönnuðum stöðvum varð hiti hæstur 22,4 stig á Mánarbakka þann 2.
Lægsti hiti mánaðarins mældist á Gagnheiði þann 10., -3,1 stig. Lægstur hiti í byggð mældist sama dag á sjálfvirku stöðinni á Möðruvöllum í Hörgárdal, -1,7 stig. Lægstur á hiti mannaðri stöð mældist í Miðfjarðarnesi þ. 11., -1,2 stig.
Úrkoma
Þurrviðrasamt var á Norður- og Vesturlandi. Úrkoma í Reykjavík mældist 45,0 mm og er það 87% meðalúrkomu. Á Akureyri mældist úrkoman aðeins 8,8 mm og er það rúmur fjórðungur meðalúrkomu. Í júlí 1990 mældist úrkoman 8,9 mm en síðan þarf að leita allt aftur til 1929 til að finna minni úrkomu í júlí heldur en nú. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 144,5 mm og er það ríflega tvöföld meðalúrkoma. Ámóta mikið rigndi í júlí 2006 í Hornafirði og enn meira í júlí 2005.
Endanleg úrkomuuppgjör liggja ekki fyrir þegar þetta er skrifað (2. ágúst) en á fáeinum stöðvum á Norðurlandi virðist úrkoman hafa verið minni nú heldur en þar hefur mælst áður. Mæliraðir þessara stöðva eru þó stuttar, ná aðeins yfir 10 til 20 ár. Mælt hefur verið á Máná og Mánárbakka á Tjörnesi í júlí síðan 1957. Úrkoma nú mældist jafnlítil og það sem minnst hefur mælst í júlí áður, 12,3 mm 2004.
Sólskinsstundir
Sólskinsstundir mældust 183,9 í Reykjavík og er það 12,6 stundum umfram meðallag. Sólskinsstundir á Akureyri mældust 197,1 og er það 38,8 stundum meira en í meðalárferði.
Vindur og loftþrýstingur
Vindhraði var í meðallagi á landinu. Loftþrýstingur í Reykjavík var 2,8 hPa yfir meðallagi, sá mesti í júlí síðan árið 2000.
Fyrstu sjö mánuðir ársins
Að meðaltali hefur verið hlýtt á landinu fyrstu sjö mánuði ársins. Meðalhiti í Reykjavík er 5,2 stig og er það um 1,1 stigi ofan meðallagsins 1961 til 1990, en 0,1 stigi kaldara en meðaltalið 2001 til 2010. Á Akureyri er hitinn fyrstu 7 mánuði ársins nú 1,0 stigi ofan meðaltalsins 1961 til 1990 en 0,1 undir meðaltalinu 2001 til 2010.
Úrkoma í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins er um 22% umfram meðallag og vantar aðeins 57 mm upp á heildarúrkomu síðasta árs, en það var fádæma þurrt. Á Akureyri er úrkoma fyrstu sjö mánuði ársins um 10% umfram meðallag.
Júlínótt
Skólaskip bandarísku strandgæslunnar, USCGC Eagle, í Reykjavíkurhöfn aðfaranótt 1. júlí 2011. Möstur, rá og reiða ber við kvöldhimin. Ljósmynd: Jón Gunnar Egilsson.