Fréttir
speglun á lygnri vík
Frá Hlöðuvík á Ströndum 24. júní 2011.

Tíðarfar í júní 2011

Stutt yfirlit

1.7.2011

Kalt var víðast hvar á landinu í júní og tíð erfið um landið norðanvert. Sérlega kalt var norðaustanlands og inn til landsins á Austurlandi og þarf að fara marga áratugi aftur í tímann til að finna ámóta kaldan júnímánuð á þeim slóðum. Hiti var hins vegar í kringum meðallag eða rétt ofan við það á litlu svæði á Suðvesturlandi, þar á meðal í Reykjavík. Mjög þurrt var um landið sunnan- og vestanvert og úrkoma var undir meðallagi á kuldasvæðunum Norðanlands en á norðanverðum Austfjörðum rigndi mikið.

Hitafar

Meðalhiti í Reykjavík var 9,2 stig og er það 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Þetta er samt kaldasti júnímánuður í Reykjavík frá árinu 1999 en ámóta hiti var í júní 2006. Meðalhiti á Akureyri var aðeins 6,7 stig og er það 2,4 stigum undir meðallagi. Þarf að fara aftur til 1952 til að finna kaldari júnímánuð á Akureyri og aðeins tveir aðrir júnímánuðir hafa verið kaldari frá því að mælingar hófust á Akureyri 1881, það eru 1882 og 1907. Í öllum þessum þremur kaldari mánuðum var talsvert kaldara heldur en nú, kaldast 1882 þegar meðalhitinn var aðeins 4,4 stig.

Á Höfn i Hornafirði var meðalhitinn 8,3 stig og er það 0,1 stigi undir meðallagi og meðalhiti á Hveravöllum var 3,7 stig, 1,2 stigum undir meðallagi. Meðaltöl á fleiri stöðvum má sjá í töflu. Áreiðanlegar mælingar ná aðeins aftur til 1954 á Egilsstöðum og er nýliðinn mánuður sá kaldasti á öllu því tímabili en gera má ráð fyrir því að kaldara hafi verið þar í júní 1952.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 9,2 0,2 74 141
Stykkishólmur 7,2 -0,9 142 166
Bolungarvík 6,1 -1,0 107 114
Akureyri 6,7 -2,4 127 130
Egilsstaðir 6,0 -2,7 57 57
Dalatangi 5,4 -0,7 63 73
Teigarhorn 6,9 0,0

Höfn í Hornaf. 8,3 -0,1

Stórhöfði 8,1 0,1 85 til 86 134
Hveravellir 3,7 -1,2 42 46

Meðalhiti í júní var hæstur á sjálfvirku stöðinni á Reykjavíkurflugvelli, 9,3 stig. Lægstur var mánaðarmeðalhitinn á Gagnheiði, -0,7 stig. Þetta er lægsti mánaðarmeðalhiti sem mælst hefur á Íslandi. Hafa verður í huga að mælingar á háfjöllum hafa aðeins verið stundaðar í um það bil 15 ár. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, 3,8 stig. Lægsti meðalhiti í byggð í júní mældist í Grímsey 1882, 1,7 stig. Þar var meðalhitinn nú 4,5 stig.

Hæsti hiti í mánuðinum mældist 21,7 stig á Þingvöllum þann 19. Á mönnuðum stöðvum varð hiti hæstur 19,7 stig á Hæli í Hreppum sama dag.

Lægsti hiti mánaðarins mældist á Brúarjökli þann 7., -9,1 stig. Lægstur hiti í byggð mældist á sjálfvirku stöðinni á Reykjum í Fnjóskadal þann 7., -5.6 stig. Lægstur á hiti mannaðri stöð mældist á Torfum í Eyjafirði þann 7., -5,3 stig.

Nýtt lágmarksdægurmet fyrir landið allt var sett á Gagnheiði þann 22. þegar hiti mældist -4,9 stig, eldra met var úr Sandbúðum 1978.

Úrkoma

Þurrviðrasamt var um meginhluta landsins. Úrkoma í Reykjavík mældist 15,1 mm og er það innan við þriðjungur meðalúrkomu. Ámóta þurrt var í júní 2008. Á Akureyri mældist úrkoman 19,4 mm og er það um 70% meðalúrkomu. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 33 mm.

Endanleg úrkomuuppgjör liggja ekki fyrir þegar þetta er skrifað en bráðabirgðatölur benda til þess að þótt þurrt hafi verið hafi met ekki verið slegin nema á fáeinum stöðvum. Á litlu svæði austanlands var úrkoma yfir meðallagi.

Myndina hér að neðan tók Birna G. Bjarnleifsdóttir af Móskarðshnjúkum 3. júní 2011.Móskarðshnjúkar

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir mældust 268,1 í Reykjavík og er það 107 stundum umfram meðallag. Þetta er með meira móti en sólskinsstundirnar í júní voru þó talsvert fleiri í Reykjavík 2008. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 136,8. Það er 40 stundum færra heldur en í meðalári. Sólskinsstundir hafa ekki verið jafnfáar í júní á Akureyri síðan 1996.

Snjór

Snjó festi á nokkrum stöðvum norðanlands framan af mánuðinum. Mest mældist snjódýptin í Svartárkoti þann 10., 7 cm.

Vindur og loftþrýstingur

Vindhraði var um 0,9 m/s yfir meðallagi og hefur ekki oft orðið meiri í júní síðustu 60 árin og sá mesti síðan 1988.

Loftþrýstingur í Reykjavík var 4,3 hPa yfir meðallagi.

Fyrstu sex mánuðir ársins

Hlýtt hefur verið á landinu fyrstu sex mánuði ársins. Meðalhiti í Reykjavík er 4,0 stig og er það um 1 stigi ofan meðallagsins 1961 til 1990, en 0,1 stigi kaldara en meðaltalið 2001 til 2010. Á Akureyri er hitinn fyrstu 6 mánuði ársins nú 0,9 stigum ofan meðaltalsins 1961 til 1990 en 0,2 undir meðaltalinu 2001 til 2010.

Úrkoma í Reykjavík fyrstu 6 mánuði ársins er um 28% umfram meðallag. Á Akureyri er úrkoma fyrstu 6 mánuði ársins um 22% umfram meðallag.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica