Tison verðlaunin
Rannsóknir í vatnafræði
Starfsmaður Veðurstofu Íslands, Emmanuel P. Pagneux, hefur hlotið hin virtu Tison verðlaun fyrir grein sína „
Inundation extent as a key parameter for assessing the magnitude and return period of flooding events in southern Iceland“
sem birtist á síðastliðnu ári í ritrýnda vísindatímaritinu Hydrological Sciences Journal (55(5)).
Eitt af helstu viðfangsefnum hans er landfræðileg greining flóðavár á Ölfusársvæðinu samkvæmt heimildum og mælingum undanfarnar tvær aldir.
Verðlaunin verða afhent á komandi þingi Alþjóðlega jarðvísindasambandsins (IUGG), sem haldið er í Melbourne í Ástralíu nú 28. júní til 7. júlí 2011, en það er Alþjóðasambandið um vatnavísindi (International Association of Hydrological Sciences, IAHS) sem veitir Tison verðlaunin.
Verðlaunin, kennd við L.J. Tison, eru veitt til viðurkenningar fyrir framúrskarandi rannsóknir ungra vatnafræðinga sem metnar eru á grundvelli vísindagreina í ritum á vegum sambandsins. Þeir sem tilnefndir eru til verðlaunanna verða að vera undir 41 árs aldri á þeim tíma sem grein þeirra birtist.
Tison verðlaunin eru veitt árlega og aðeins einum vísindamanni eða einum hópi vísindamanna í senn. Öðru hvoru kemur það fyrir að engin verðlaun eru veitt það árið. Það er þegar vísindagreinar í ritum félagsins eru ekki taldar rísa undir þeim gæðakröfum sem Tison verðlaunin kalla á.
Grein er einnig nýkomin út í öðru tímariti, Natural Hazards, eftir Emmanuel Pagneux, Guðrúnu Gísladóttur og Salvöru Jónsdóttur: Public perception of flood hazard and flood risk in Iceland: a case study in a watershed prone to ice-jam floods.