Tíðarfar í maí 2011
Stutt yfirlit
Tíðarfar í maí skiptist mjög í tvö horn. Dagana 2. til 10. var hiti langt yfir meðallagi og vel yfir því fram til 19. Þá kólnaði verulega, sérlega kalt var þá í nokkra daga og svöl tíð hélst til mánaðamóta. Norðanáhlaup gerði dagana 23. og 24. og snjóaði þá víða norðanlands og sums staðar á Austurlandi snjóaði mikið og varð ófærð þar á fjallvegum og truflanir á umferð í byggð.
Hitafar
Meðalhiti í Reykjavík var 6,9 stig og er það 0,6 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var meðalhitinn 5,2 stig, 0,3 stigum undir meðallagi. Hiti var víðast lítillega undir meðallagi frá Vestfjörðum og austur um til Fljótsdalshéraðs, en heldur ofan við frá Austfjörðum suður um til Breiðafjarðar. Meðalhita á nokkrum stöðvum má sjá í töflu.
stöð | hiti | vik | röð | af |
Reykjavík | 6,9 | 0,6 | 43 | 141 |
Stykkishólmur | 5,1 | 0,2 | 80 til 84 | 166 |
Bolungarvík | 3,6 | -0,4 | 82 til 83 | 114 |
Akureyri | 5,2 | -0,3 | 70 | 130 |
Egilsstaðir | 4,4 | -0,4 | 43 | 57 |
Dalatangi | 3,8 | 0,5 | 39 | 73 |
Teigarhorn | 5,3 | 0,8 | 42 | 139 |
Höfn í Hornaf. | 6,7 | 0,4 | ||
Stórhöfði | 6,5 | 0,6 | 45 | 134 |
Hveravellir | 0,9 | 0,3 | 25 | 46 |
Meðalhiti í maí var hæstur í Skaftafelli, 7,3 stig. Lægstur var hann í byggð 2,3 stig í Möðrudal. Á fjöllum var meðalhiti lægstur á Þverfjalli vestra, -1,7 stig.
Hæsti hiti í mánuðinum mældist 18,4 stig, á Þingvöllum þann 8. Á mönnuðum stöðvum varð hiti hæstur á Skjaldþingsstöðum þann 2., 17,2 stig.
Lægsti hiti mánaðarins mældist -13,8 stig á Brúarjökli þann 25. Þetta er lægsti hiti sem mælst hefur á landinu þennan ákveðna dag mánaðarins. Nýtt dægurmet var einnig sett á Brúarjökli daginn áður, þann 24. Lægstur hiti í byggð mældist sama dag á Grímsstöðum á Fjöllum, -8,2 stig og er það jafnframt lægsti hiti sem mælst hefur í byggð þann 25. maí.
Úrkoma
Úrkoma var mjög mikil austast á landinu. Maímet voru slegin á allnokkrum stöðvum á svæðinu frá Vopnafirði suður í Neskaupstað. Frekar þurrt var syðst á landinu.
Úrkoma í Reykjavík mældist 66,2 mm og er það um 50% umfram meðallag. Meir en helmingur úrkomunnar, 38,8 mm, bókast á þann 1., féll milli kl. 9 að morgni 30. apríl og 9 að morgni 1. maí. Ekki hefur áður mælst svo mikil sólarhringsúrkoma í maí í Reykjavík.
Úrkoman á Akureyri mældist 55,0 mm og er það nærri þreföld meðalúrkoma maímánaðar. Úrkoma á Akureyri hefur aðeins einu sinni mælst meiri í maí, það var 1929 er 59,2 mm komu í mælinn.
Úrkoma á Höfn í Hornafirði mældist 79,5 mm. Úrkoma í Stykkishólmi var um þriðjung umfram meðalag og aðeins helmingur meðallags á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.
Sólskinsstundir
Sólskinsstundir mældust 228,7 í Reykjavík og er það 37 stundum umfram meðallag. Þetta er litlu meira en í fyrra, en töluvert minna en 2009. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 120,7 og er það 53 stundum neðan meðallags. Ámóta sólarlaust var á Akureyri í maí 2004 og 2007.
Snjór
Óvenjumikill snjór var austanlands seint í mánuðinum og fyrstu tvo dagana var víða alhvítt suðvestanlands, m.a. í Reykjavík. Snjódýpt þar mældist 16 cm þann 1. Á Akureyri var jörð talin alauð allan mánuðinn. Mest snjódýpt í mánuðinum mældist 25 cm á Grímsstöðum á Fjöllum þann 24. Þann 21. mældist snjódýpt á Hánefsstöðum í Seyðisfirði 21 cm.
Vindur og loftþrýstingur
Vindhraði var um 1,1 m/s yfir meðallagi og hefur ekki oft orðið meiri í maí síðustu 60 árin, en var þó marktækt meiri en nú í maí 2009.
Loftþrýstingur í Reykjavík var 5,2 hPa undir meðallagi.
Myndin hér undir er úr skíðaferð á Böggvisstaðadal vestur af Dalvík, 13.-15. maí 2011. Sólarglæta og snjór í botni Böggvisstaðadals.
Fyrstu fimm mánuðir ársins
Hlýtt hefur verið á landinu fyrstu fimm mánuði ársins, í Reykjavík er hitinn 1,1 stigi ofan meðallagsins 1961 til 1990, en 0,1 stigi ofan meðallags áranna 2001 til 2010. Á Akureyri eru fyrstu fimm mánuðurnir um 1,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 1,1 ofan meðallags áranna 2001 til 2010.
Þessir fyrstu 5 mánuðir ársins teljast því til hlýskeiðsins sem ríkt hefur hér á landi síðasta áratuginn.
Úrkoma er um 8% umfram meðallag í Reykjavík fyrstu fimm mánuði ársins, en 45% umfram meðallag á Akureyri.