Fréttir
gosmökkur
Mynd tekin norðan við gosstöðvarnar í morgun kl. 10:10.
1 2

Mökkur og eldingar

Ekki búist við jökulhlaupi

22.5.2011

Gosmökkurinn í Grímsvötnum fór í yfir 20 km hæð í gær. Samkvæmt upplýsingum sérfræðinga Veðurstofunnar sem flugu nálægt gosstöðvunum í morgun hafði mökkurinn lækkað í um 15 km. Í dag hefur hann verið í um 10 km og svo aftur í 11 km.  Ný færanleg veðursjá Veðurstofunnar sem flutt var í nágrenni Vatnajökuls sýnir þessa þróun.

Staðfest er að gosið í Grímsvötnum er í sjálfri öskjunni nærri þeim stað sem gaus 2004. Síðast hljóp úr Grímsvötnum 31. október 2010, lítið vatn hefur safnast þar saman og þunnur ís er á öskjunni. Þegar gaus í Grímsvötnum 1998 og 2004 urðu jökulhlaup nokkru eftir að gos hófst. Ekki er talið að samsvarandi aðstæður séu uppi nú og því er ekki búist við jökulhlaupi.

Settur hefur verið upp sérstakur vefur sem sýnir eldingar í Grímsvatnagosi 2011. Miklar eldingar voru í mekkinum í gærkvöldi og nótt, 21.-22. maí, og er fjöldi skráðra eldinga á klukkustund með mælikerfi bresku veðurstofunnar um 1000 sinnum hærri en í Eyjafjallajökulsgosinu 2010.  Á fyrstu 18 klst gossins hafa mælst um 15 þús. eldingar, en á 39 dögum Eyjafjallajökulsgossins mældust 790 eldingar með sama mælikerfi. Rannsóknir í Eyjafjallajökulsgosinu benda til að eldingar verði þegar mökkurinn rís það hátt að vatn í honum frýs.

Gosmökkurinn sést á MODIS gervitunglamynd frá kl. 5 í morgun eða við sólarupprás. Dökka svæðið  er í skugga frá efri hluta gosstróksins í austurjaðrinum. En varðandi flugumferð má skoða vef London VAAC (Volcanic Ash Advisory Centre); þar sýnir efsti tengill nýjustu stöðu mála.

gervitunglamynd


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica