Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í apríl 2011.
Jarðskjálftar á Íslandi í apríl 2011.

Jarðskjálftar á Íslandi í apríl 2011

20.5.2011

Alls mældust 615 jarðskjálftar á og við landið í mánuðinum og er það nokkuð minni virkni en í síðasta mánuði. Stærsti skjálftinn varð norður af Tjörnesi, 3,3 stig.

Á Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg voru staðsettir 89 skjálftar. Meirihluti þeirra varð við Kleifarvatn en þó hafði dregið verulega úr jarðskjálftavirkninni þar í samanburði við marsmánuð. Jarðskjálftavirkni glæddist örlítið í Fagradalsfjalli en fremur lítið hefur verið um virkni þar undanfarið eitt og hálft ár.

Á Hengilssvæðinu og á Suðurlandsundirlendinu var 81 skjálfti staðsettur. Flestir þeirra urðu á syðri hluta Kross-sprungunnar og í Hjallahverfi. Auk þess mældist einn lítill (ML=0,7) og grunnur (dýpi 1,4 km) skjálfti í Heklu föstudagskvöldið 29. apríl. Ekki varð vart við frekari virkni þar.

Tæplega 60 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli, 17 innan öskjunnar en aðrir í vesturjöklinum. Stærsti skjálftinn varð innan öskjunnar um miðjan dag þann 10. apríl, 2,3 að stærð. Daginn eftir varð litlu minni skjálfti í vesturjöklinum. Sex smáskjálftar urðu í Eyjafjallajökli, flestir suður af toppgígnum. Tæpur tugur smáskjálfta varð á Torfajökulssvæðinu og þrír nærri Eldgjá.

Undir Þórisjökli í vestara gosbeltinu mældust sex skjálftar í smáhrinu sem varð upp úr miðnætti 19. apríl. Hún stóð stutt yfir og stærsti skjálftinn var 1,8 stig. Nokkrir skjálftar urðu undir Geitlandsjökli, þrír undir Skjaldbreið og einn norðvestur af Hveravöllum og var hann rúmlega tvö stig. Þrír skjálftar mældust undir Hofsjökli, sá stærsti rúm tvö stig.

Undir Vatnajökli mældust 102 skjálftar. Stærsti skjálftinn var í Grímsvötnum, tæplega 2,9 stig, en alls mældust 27 skjálftar á því svæði. Við Kistufell mældist 21 skjálfti; 18 á Lokahrygg; 13 við og í kringum Bárðarbungu. Við Kverkfjöll voru alls 20 skjálftar, sá stærsti 1,8 stig. Einn lítill skjálfti mældist norðan Öræfajökuls, 1,2 stig.

Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust 93 skjálftar og dreifðust þeir nokkuð vítt um svæðið. Stærsti skjálftinn varð við Öskju, um 2,5 stig. 

Fyrir norðan land voru staðsettir 135 jarðskjálftar, þar af 35 í Öxarfirði. Sá stærsti mældist norður af Tjörnesi, klukkan 20:26 þann 22. apríl. Stærðin mældist 3,3. Tugur skjálfta mældist á Þeistareykjasvæðinu, allir minni en einn að stærð. Í nágrenni Kröflu mældust átta skjálftar, þrír nærri Flateyjardal. Tveir skjálftar, M1,5 og M1,6 mældust í nágrenni Dalvíkur.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica