Fréttir
jökull, strókur, lónið horfið
Eyjafjallajökull 17. apríl 2010.

Ár liðið frá upphafi eldgossins í Eyjafjallajökli

14.4.2011

Við eldgosin vorið 2010 reyndi verulega á upplýsingamiðlun um vef Veðurstofunnar en hún var af tvennum toga: annars vegar sýndu kviku síðurnar staðsetningu nýrra jarðskjálfta, ásamt tímasetningu þeirra og stærð, tvo sólarhringa aftur í tímann.

Hins vegar voru fréttir og fréttagreinar skrifaðar daglega með fjölda ljósmynda sem bárust bæði frá sérfræðingum og áhugamönnum. Einnig voru birt stutt myndskeið, ýmist tekin í nálægð við atburðina eða samsett úr gervihnattamyndum.

Þess má geta að í dag er fjallað um Eyjafjallajökulsgosið í Háskóla Íslands, bæði áhrif á fólk og náttúru, en þetta er einn af mörgum viðburðum í tilefni af aldarafmæli Háskólans.

Á vef Veðurstofunnar var birt ítarefni er tilefni gafst. Þegar fjallað var um dýpt skjálftanna fylgdu staðsetningarkortum lóðrétt snið sem sýndu hvernig þyrpingin þokaðist upp á við. Við umfjöllun um flóð og jökulhlaup voru birt kort ásamt línuriti úr vatnshæðarmælum sem sýndu snöggar breytingar. Hraunflæðilíkan var gert fyrir Fimmvörðuháls og vel fylgst með myndun gíga í Eyjafjallajökli. Mikið var fjallað um hæð og gerð gosmakkarins og um dreifingu öskunnar yfir Atlantshaf.

Veðurfræðingar gerðu öskufoksspá tvisvar á dag sem birt var á sérhönnuðu korti. Fólk lét vita ef ösku varð vart og upplýsingarnar birtust jafnóðum á vefnum. Fyrir þá sem áhyggjur höfðu af flúormengun voru veittar upplýsingar um úrkomu þar sem aska lá. Fyrirspurnir og ábendingar frá almenningi voru gagnlegar og notaðar til að bæta vefinn. Áberandi borði veitti flýtileiðir á allt er eldgosið varðaði og tenglar á sértækar síður voru auðséðir. Nánast allt þetta efni var jafnóðum sett fram á enskum vef Veðurstofunnar.

Fundir um áhrif eldgossins

Fjölmargir fundir voru haldnir með flugmálastjórn, flugrekendum, íbúum og Almannavörnum meðan á gosinu stóð. Alþjóðleg Flugráðstefna Keilis um Eyjafjallajökul og flugsamgöngur var haldin 15.-16. september 2010. Ráðstefnan var fjölsótt; rætt var um áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á ferðaiðnaðinn í heiminum. Daginn áður hélt Veðurstofan alþjóðlegan fund fyrir þá sem komu að upplýsingagjöf í eldgosinu.

Vinnufundur innlendra og erlendra jarðvísindamanna var haldinn á Hvolsvelli dagana 17.-19. september 2010. Rætt var um vöktun jarðhræringa í nágrenni virkra eldfjalla og ályktanir dregnar af atburðunum. Á þessum fundum kom fram að aðgengi að gögnum Veðurstofunnar þótti gott og áratugalöng samvinna Veðurstofu og Almannavarna til fyrirmyndar.

Á afmælisfundi Veðurstofu Íslands hinn 14. desember 2010 voru flutt erindi um eldgos, jarðvá, gosmökk, öskudreif, flóð og jökulhlaup frá Eyjafjallajökli. Veðurfræðifélagið fjallaði um eldgosið bæði á haustþingi og þorraþingi. Á vorráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands verður meðal annars fjallað um eldgosin (pdf 0,1 Mb).

Þá er ótalinn ýmis annar vettvangur fyrir þetta efni; nefna má Almannavarnir, LBHÍ og Vísindavefinn.

Fræðileg umfjöllun

Mörg erindi, veggspjöld, skýrslur og ritrýndar greinar hafa komið fram um eldgosin.

Hvað Veðurstofuna varðar má sjá samantekt um viðbrögð Veðurstofu (pdf 4,0 Mb), ritaskrá 2010 og ritaskrá 2011. Erindi voru flutt um Eyjafjallajökulsgosið á árlegri ráðstefnu AGU í San Fransisco í desember 2010, á AMS í Seattle í janúar síðastliðinn og á ráðstefnu EGU í Vín síðustu viku. Efni verður einnig flutt á ráðstefnu IUGG í Melbourne í júlí en þetta eru stærstu fagráðstefnurnar á hverju sviði (sjá neðst).

Á Jarðvísindastofnun HÍ eru einnig stundaðar öflugar rannsóknir á áhrifum eldgossins; skoða má lista yfir greinar og skýrslur og birt efni hvað varðar Eyjafjallajökul, meðal annars nýútkomnar greinar um öskuna og um fjarvöktun gossins.

Ný mynd af gígnum

Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull 9. mars 2011 kl. 15, tæpu ári eftir gos. Ljósmynd: Jón G. Sigurðsson, Atlantsflug.

Aðsókn að vef Veðurstofunnar

Súluritið sýnir notkun á vef Veðurstofunnar (samkvæmt mælingum með webalizer) í hverjum mánuði frá því í janúar 2010 og fram í apríl 2011 (rúmu ári síðar). Vorið 2010 sker sig úr.

Mörg met voru einnig sett í daglegri notkun á vefnum, m.a. 19. apríl 2010. Miðað við höfðatölu voru daglegar flettingar þá nokkru fleiri en met daglegra flettinga á vef dönsku veðurstofunnar, dmi.dk. Einnig var mesta vikuleg notkun hærri, miðað við höfðatölu, en mesta vikuleg notkun á norska veðurþjónustuvefnum yr.no.

Fagfélög

AGU, American Geophysical Union, Ameríska jarðeðlisfræðisambandið

AMS, American Meteorological Society, Ameríska veðurfræðifélagið

EGU, European Geosciences Union, Evrópska jarðfræðasambandið

IUGG, International Union of Geodesy and Geophysics, Alþjóðlega jarðvísindasambandiðAðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica