Ósonlagið jafnar sig
Árni Sigurðsson
Óvenjumikil ósonþynning átti sér stað í heiðhvolfinu yfir norðurheimskautinu veturinn 2010-2011. Það sem einkum olli áhyggjum var að þynningin virtist tengjast gróðurhúsaáhrifunum og breytingum á veðurfari.
Á síðasta áratug hafa vetur verið óvenju mildir á norðurslóðum og hefur þróunin verið mjög í takt við þær breytingar á veðurfari sem vænta má vegna hækkunar koltvísýrings í veðrahvolfi. Þegar varmageislun frá jörðu tapar varma í auknum mæli til gróðurhúsalofttegunda í veðrahvolfinu, leiðir það til kólnunar í heiðhvolfi. Yfir veturinn myndast hvass hringstraumur í heiðhvolfinu umhverfis kalt loft sem liggur þá yfir norðurheimskautinu. Þegar heiðhvolfið kólnar niður fyrir -80° myndast í því glitský sem eru skýjabreiður úr ískristöllum. Þegar klórsameindir komast í snertingu við ískristallana, myndast hvarfgjarnar sameindir sem hvarfast við ósonið (O3) og eyða því. Því kaldara sem heiðhvolfið er á veturna því meira eyðist af ósoni.
Klórflúorkolefnin (CFC) sem sleppt var út í andrúmsloftið í umtalsverðu magni á árunum kringum 1970 til 1990 eru enn til staðar, því líftími þeirra í heiðhvolfinu er yfirleitt nokkrir áratugir. Því er spáð að draga muni úr magni CFC í heiðhvolfi þegar kemur fram yfir miðja 21. öld. Þangað til lítur út fyrir að ósonþynning yfir heimskautasvæðum, síðla vetrar, verði viðvarandi.
Veturinn 2010-2011 var ósonþynningin yfir norðurheimskautinu jafnvel meiri en mælst hefur áður. Bar nokkuð á ótta eftir að fréttir fóru að berast af svokölluðu „
ósongati“
í fjölmiðlum. Rétt er að benda á í þessu samhengi að á norðurhveli jarðar, norðan við 50° N, er ósonlagið þykkast síðla vetrar og fram eftir vori. Þá eru algeng gildi á bilinu 400 til 450 Dobsoneiningar (DU).
Um veturinn gerðist það að á tiltölulega litlu svæði yfir norðurpólnum átti sér stað veruleg ósonþynning þannig að þar var ósonlagið aðeins um 250 DU. Til samanburðar þá helst ósonlagið nokkuð stöðugt við 250 DU um miðbik jarðar þar sem sólin er mun sterkari. Nokkrum sinnum eftir áramót, þegar þunna svæðið komst í námunda við landið, nálgaðist ósonið 300 DU og lægst fóru gildin hér í kringum 280 DU dagana 28. og 29. mars 2011.
Þegar vorar, vermir sólin norðurhvel jarðar og hringstraumurinn hverfur og eftir það helst ósonið alls staðar hátt á norðurslóðum. Í apríl 2011 hurfu kalda loftið og hringstraumurinn og mun hlýrra og ósonríkara loft kom í staðinn.
Hægt er að fylgjast með ósonlaginu á síðum umhverfisstofnunar Kanada (Environment Canada).