Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í  mars 2011
Jarðskjálftar á Íslandi í mars 2011

Jarðskjálftar á Íslandi í mars 2011

11.4.2011

Alls mældust 1090 jarðskjálftar í marsmánuði. Stærstu skjálftarnir urðu norður á Kolbeinseyjarhrygg, sá stærsti náði stærð Ml 4. Stærsti skjálftinn á landinu mældist af stærð 3,5 við Kleifarvatn.

Á Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg mældust 460 skálftar, þar af voru 444 skjálftar við Krýsuvík og Kleifarvatn. Stærsti skjálftinn í mánuðinum varð jafnframt á þessu svæði, en hann mældist 2. mars og var af stærðinni Ml 3,5 og varð hann rétt við Krýsuvíkurskóla. Mest var virknin í upphafi mánaðarins, en skjálftahrina á þessu svæði hófst 25. febrúar. GPS mælingar hafa einnig mælt landris á svæðinu, en hér má sjá kort yfir skjálftana þann 28. febrúar - 6. mars ásamt staðsetningu á rismiðju samkvæmt GPS mælingum.

Á Hengilssvæðinu og á Suðurlandsundirlendinu mældust rúmlega 100 skjálftar. Stærstu skjálftarnir voru um Ml 1 að stærð. Um helmingur skjálftanna urðu í Ölfusi og Flóa og á Hestvatnssprungunni mældust 12 skjálftar, en þess utan var virknin nokkuð dreifð um allt Suðurlandsundirlendið.

Í vestara gosbeltinu mældust um 30 skjálftar. Skjálftar áttu upptök undir Þórisjökli og Geitlandsjökli í Langjökli. Stærsti við Þórisjökul var Ml 2,2 að stærð og undir Geitlandsjökli Ml 2,5. Nokkrir skjálftar, stærsti Ml 1,9, mældust undir og við Skjaldbreið og þrír skjálftar við Högnhöfða. Þann 27. mars mældust sjö smáskjálftar um sjö kílómetrum norðvestur af Hveravöllum. Stærsti var Ml 1,4. Þrír mældust á Kili 21. mars 1,3 - 1,8 að stærð.

Undir Mýrdalsjökli mældust tæplega 80 skjálftar í mars, langflestir undir vestanverðum jöklinum við Goðabungu. Stærsti var um tvö stig. Um tíu smáskjálftar voru staðsettir í Kötluöskju. Tíu smáskjálftar mældust undir Eyjafjallajökli, þeir stærstu aðeins um 0 stig. Á Torfajökulssvæðinu mældust sex skjálftar, stærstu um 1,5 stig.

Undir Vatnajökli og næsta nágrenni mældust 110 skjálftar í mars. Stærsti skjálftinn varð á Lokahrygg þann 12. mars af stærð Ml 2,8, en alls mældust 22 skjálftar á Lokahrygg. Mest var virknin í kringum Grímsvötn, en þar mældust alls 50 skjálftar, sá stærsti um Ml 2,4. Við Bárðarbungu mældust níu skjálftar, sjö norðan í bungunni og tveir austan við hana. Við Kistufell voru skráðir 12 jarðskjálftar og í Kverkfjöllum 11 skjálftar, allir innan við stærð Ml 2. Tveir jarðskjálftar mældust við Þórðarhyrnu, einn við Vonarskarð og smáskjálftar voru skráðir upp af Skeiðarárjökli og Skaftafellsjökli, sem og við Breiðamerkurjökul. Einn jarðskjálfti mældist um 45 kílómetra suður af Höfn í Hornafirði.

Í kringum Öskju og Herðubreið mældust alls 87 jarðskjálftar, stærsti var við Öskju, um Ml 2,2 að stærð. Norður af Öskju mældust 12 skjálftar á 13,5-27 kílómetra dýpi og þrír skjálftar við Herðubreiðartögl lentu á 11-12 kílómetra dýpi. Einn skjálfti mældist við Ketildyngju og annar við Búrfell í nágrenni Mývatns.

Úti fyrir Norðurlandi á svonefndu Tjörnesbrotabelti mældust rúmlega 150 jarðskjálftar. Stærsti skjálftinn þar var þrír að stærð og átti upptök fyrir mynni Eyjafjarðar þann 25. mars. Mest var skjálftavirknin í Öxarfirði, norðaustur af Grímsey og við Flatey á Skjálfanda. Skjálftar mældust einnig úti fyrir mynni Eyjafjarðar, í Eyjafjarðarál og við Kolbeinsey mældust fáeinir skjálftar allt að þremur stigum. Fáeinir smáskjálftar mældust við Þeistareyki og Kröflu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica