Dagur vatnsins 2011
Dagur vatnsins, 22. mars, á rætur að rekja til umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Rio de Janeiro árið 1992 og þjónar því markmiði að vekja umræðu og athygli á mikilvægi ferskvatns og sjálfbærri nýtingu þeirrar auðlindar. Dagurinn er á þessu ári helgaður vatni í borgum, aðgangi borgarbúa jarðarinnar að hreinu vatni, sjá nánar. Vatn er ekki sjálfgefið og jafnvel bæjarfélög á Íslandi hafa liðið fyrir vatnsskort og mengun yfirborðsvatns í gegnum tíðina.
Eins og alkunnugt er var starfsemi Veðurstofu Íslands og Vatnamælinga sameinuð í nýrri stofnun undir nafni hinnar fyrrnefndu í ársbyrjun 2009. Helstu viðfangsefni Vatnamælinga voru kerfisbundnar vatnamælingar, mælingar á jöklabúskap og kortlagning á ísalögum vatna, langtímarannsóknir á vatnsauðlindinni og gerð vatnafars- og flóðakorta. Stofnunin sinnir nú margvíslegum umhverfisrannsóknum og vöktun í lofti, á láði og í legi.
Vatnið
Unnið hefur verið að efnagreiningum í straum- og grunnvatni síðastliðna fjóra áratugi í tengslum við fjölmörg verkefni og ýmsa aðila. Mikil sýnatökuherferð var framkvæmd í byrjun áttunda áratugarins innan helstu vatnasviða landsins (Halldór Ármannsson o.fl. 1973; 1974) og hafa þær niðurstöður verið notaðar sem gildi fyrir grunnástand í mörgum vatnsföllum. Í kjölfar Gjálpargossins árið 1996 var skilgreint verkefni með því markmiði að koma á sjálfvirku efnavöktunarkerfi vegna jökulhlaupa og flóða frá eldsumbrotum í Vatnajökli og Mýrdalsjökli (Hrefna Kristmannsdóttir o.fl. 2006) og var bakgrunnsgögnum um árstíðarsveiflur í efnastyrk safnað innan þess verkefnis, auk þess sem leiðnimælar voru settir upp, sem og vöktunarkerfi.
Í byrjun 9. áratugarins, og aftur árið 1996, hóf Orkustofnun að safna sýnum úr lindum og straumvötnum vítt og breitt um landið undir forystu Freysteins Sigurðssonar og heldur Veðurstofa Íslands utan um þau gögn og hefur tekið saman skýrslur um niðurstöðurnar (m.a. Ríkey H. Sævarsdóttir 2002; Vaka Antonsdóttir og Ríkey H. Sævarsdóttir, 2006). Árið 1996 hófst samstarf nokkurra stofnana um efnavöktun í íslenskum vatnsföllum sem síðan þá hefur þróast með breytingum á fjárveitingum og kostunaraðilum.
Í dag eru sýni til efnagreininga tekin úr helstu vatnsföllum á Suðurlandi, Austurlandi og Vesturlandi og gefnar út árlegar skýrslur um niðurstöðurnar (Eydís S. Eiríksdóttir o.fl. 2010a, b, c). Að auki mælir Veðurstofa Íslands m.a. hita, leiðni og aurburð í helstu vatnsföllum landsins.
Vatna- og flóðatilskipun Evrópusambandsins
Í samræmi við stofnsáttmála Evrópusambandins, samþykktir EES og skuldbindingu Íslands um upptöku á Vatnatilskipun 2000/60/EU og Flóðatilskipun 2007/60/EU Evrópusambandsins hafa starfsmenn Veðurstofu Íslands tekið þátt í undirbúningi vegna fyrirhugaðrar innleiðingar þessara tilskipana í samvinnu við Umhverfisstofnun og aðrar fagstofnanir ríkis og sveitarfélaga.
Auk þátttöku í vinnuhópum á vegum Umhverfisstofnunar hefur aðkoma Veðurstofu Íslands einkum snúið að undirbúningsvinnu varðandi skilgreiningu og samþættingu gagna, skipulag og uppbyggingu gagnakerfa og gagnaskil er lúta að skráningu, skýrslugerð og því þjónustuhlutverki sem kveðið er á um í bæði vatna- og flóðatilskipuninni.