Fréttir
afhending
Verkefnið "Vindhraðamælingar og sambreytni vinds á Íslandi" var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands og fékk sérstaka viðurkenningu á Bessastöðum þann 2. mars síðastliðinn.
1 2
fyrri

Verkefni á sviði vindorkureikninga hlaut viðurkenningu

Tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

18.3.2011

Verkefnið Vindhraðamælingar og sambreytni vinds á Íslandi var stutt af Veðurstofu Íslands og Nýsköpunarsjóði námsmanna. Það var unnið sumarið 2010 af Jóni Blöndal og Teiti Birgissyni, sem eru nemar við Háskóla Íslands, en leiðbeinendur voru Halldór Björnsson (VÍ) og Kristján Jónasson (HÍ).

Verkefnið var á sviði vindorkureikninga. Það var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands og fékk sérstaka viðurkenningu á Bessastöðum þann 2. mars síðastliðinn.

Lýsing á verkefninu

Búið var til leiðrétt gagnasafn með vindmælingum sem framkvæmdar voru með sjálfvirkum vindmælum árin 1998-2010 á vegum Veðurstofu Íslands og fleiri aðila (t.d. Vegagerðarinnar og Landsvirkjunar).

Allir vindmælarnir sem nýttir voru senda frá sér vindhraðagildi á 10 mínútna fresti (meðaltal undanfarinna 10 mínútna) og það voru þessi upphaflegu gögn sem unnið var með í verkefninu. Gagnasafnið sem búið var til geymir sem sé 10 mínútna vindhraðagögn, þ.e. 6 mælingar á hverri klukkustund. Teknar voru saman upplýsingar um gæði þessara mælinga, svo sem líkleg villutíðni, fjöldi tímabila þar sem mælingar vantar og heildarhlutfall mælingatímabils hverrar stöðvar sem er með mælingar í lokaútgáfu gagnasafnsins. Kannað var hvernig gæðin eru háð árstíma, hæð veðurstöðvar yfir sjó o.fl.

Í framhaldi var gerð könnun á sambreytni vinds á landinu samkvæmt þessum mælingum og framkvæmt fyrsta mat á því hve mikla orku mætti fá úr vindmyllum sem byggðar væru á mælistöðunum. Alls eru í gagnasafninu mælingar frá 145 veðurstöðvum, að meðaltali 7,5 ár fyrir hverja stöð, og þær dreifast allvel um landið. Að meðaltali eru til mælingar fyrir 96,6% af tímabilinu frá fyrstu til síðustu mælingar á hverri stöð.

Mat á meðalafli 3 MW staðalvindmyllu sem byggð væri á veðurstöðvunum gaf að meðaltali 1,08 MW og á 16 stöðum reiknaðist meðalaflið yfir 1,5 MW.

Þetta telst mjög góð nýtni í samanburði við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica