Fréttir
skýjafar
Skýjafar yfir Þríhyrningi 18. febrúar 2011.

Tíðarfar í febrúar 2011

Stutt yfirlit

1.3.2011

Febrúar var hlýr og umhleypingasamur. Úrkoma var mikil um landið sunnan- og vestanvert og loftþrýstingur var óvenjulágur. Minniháttar tjón varð í illviðrum.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 2,1 stig og er það um 1,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Ekki hefur verið hlýrra í febrúar síðan 2006. Á Akureyri var meðalhitinn 0,1 stig og er það 1,5 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðahitinn 2,8 stig og -3,9 á Hveravöllum. Hvoru tveggja er meir en 2 stig ofan meðallags. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 2,1 1,8 15 141
Stykkishólmur 1,3 2,0 14 166
Bolungarvík 0,9 1,8 16 114
Akureyri 0,1 1,5 32 130
Egilsstaðir 0,3 2,2 14 57
Dalatangi 2,8 2,2 5.til 6. 73
Teigarhorn 2,3 2,1 7 139
Höfn í Hornaf. 2,8 2,2
Stórhöfði 3,4 1,4 12.til 13. 134
Hveravellir -3,9 2,0 6.til 7. 46


Hæstur meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum var 4,4 stig í Surtsey, en lægstur í Sandbúðum, -5,5 stig.

Á sjálfvirkri stöð í byggð var meðalhiti lægstur í Svartárkoti, -3,3 stig. Hæsti hiti sem mældist í mánuðinum var 12,7 stig í Skaftafelli þann 23. Á mönnuðu stöðvunum var hiti hæstur 11,2 stig á Skjaldþingsstöðum þann 25.

Lægsti hiti sem mældist í mánuðinum var -22,6 stig í Upptyppingum þann 8. Lægsti hiti í byggð mældist á Þingvöllum sama dag, -20,5 stig. Lægsta lágmark á mannaðri stöð mældist -15,9 stig þann 7. á Grímsstöðum á Fjöllum.

Úrkoma

Úrkoma var mikil um landið sunnan- og vestanvert. Í Reykjavík mældist hún 107,7 mm og er það 50 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 34,6 mm og er það 81 prósent meðallags.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 55,5 og er það 4 stundum umfram meðallag. Fjöldi sólskinsstunda var einnig í meðallagi á Akureyri, þar mældust þær 35.

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði var í rétt tæpu meðallagi. Nokkur illviðri gerði í mánuðinum; mest kvað að þeim þann 8. og 10. en þá varð nokkurt foktjón um landið suðvestan- og vestanvert.

Loftþrýstingur í Reykjavík var 14,9 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Þetta er lægsti mánaðarþrýstingur (nokkurs mánaðar) í Reykjavík síðan í febrúar 1997, en þrýstingur var ámóta lágur í febrúar 2000.

Snjór

Snjólétt var lengst af í mánuðinum. Í Reykjavík var þó alhvítt í 10 daga og er það jafnt meðallaginu 1961 til 1990 og einum degi fleiri en að meðaltali 2001 til 2010. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir aðeins 11 og er það 9 dögum færra en að meðallagi 1961 til 1990 og 3 dögum færra en að meðaltali 2001 til 2010.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica