Tíðarfar í febrúar 2011
Stutt yfirlit
Febrúar var hlýr og umhleypingasamur. Úrkoma var mikil um landið sunnan- og vestanvert og loftþrýstingur var óvenjulágur. Minniháttar tjón varð í illviðrum.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík mældist 2,1 stig og er það um 1,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Ekki hefur verið hlýrra í febrúar síðan 2006. Á Akureyri var meðalhitinn 0,1 stig og er það 1,5 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðahitinn 2,8 stig og -3,9 á Hveravöllum. Hvoru tveggja er meir en 2 stig ofan meðallags. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | hiti | vik | röð | af |
Reykjavík | 2,1 | 1,8 | 15 | 141 |
Stykkishólmur | 1,3 | 2,0 | 14 | 166 |
Bolungarvík | 0,9 | 1,8 | 16 | 114 |
Akureyri | 0,1 | 1,5 | 32 | 130 |
Egilsstaðir | 0,3 | 2,2 | 14 | 57 |
Dalatangi | 2,8 | 2,2 | 5.til 6. | 73 |
Teigarhorn | 2,3 | 2,1 | 7 | 139 |
Höfn í Hornaf. | 2,8 | 2,2 | ||
Stórhöfði | 3,4 | 1,4 | 12.til 13. | 134 |
Hveravellir | -3,9 | 2,0 | 6.til 7. | 46 |
Hæstur meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum var 4,4 stig í Surtsey, en lægstur í Sandbúðum, -5,5 stig.
Á sjálfvirkri stöð í byggð var meðalhiti lægstur í Svartárkoti, -3,3 stig. Hæsti hiti sem mældist í mánuðinum var 12,7 stig í Skaftafelli þann 23. Á mönnuðu stöðvunum var hiti hæstur 11,2 stig á Skjaldþingsstöðum þann 25.
Lægsti hiti sem mældist í mánuðinum var -22,6 stig í Upptyppingum þann 8. Lægsti hiti í byggð mældist á Þingvöllum sama dag, -20,5 stig. Lægsta lágmark á mannaðri stöð mældist -15,9 stig þann 7. á Grímsstöðum á Fjöllum.
Úrkoma
Úrkoma var mikil um landið sunnan- og vestanvert. Í Reykjavík mældist hún 107,7 mm og er það 50 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 34,6 mm og er það 81 prósent meðallags.
Sólskinsstundir
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 55,5 og er það 4 stundum umfram meðallag. Fjöldi sólskinsstunda var einnig í meðallagi á Akureyri, þar mældust þær 35.
Vindhraði og loftþrýstingur
Vindhraði var í rétt tæpu meðallagi. Nokkur illviðri gerði í mánuðinum; mest kvað að þeim þann 8. og 10. en þá varð nokkurt foktjón um landið suðvestan- og vestanvert.
Loftþrýstingur í Reykjavík var 14,9 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Þetta er lægsti mánaðarþrýstingur (nokkurs mánaðar) í Reykjavík síðan í febrúar 1997, en þrýstingur var ámóta lágur í febrúar 2000.
Snjór
Snjólétt var lengst af í mánuðinum. Í Reykjavík var þó alhvítt í 10 daga og er það jafnt meðallaginu 1961 til 1990 og einum degi fleiri en að meðaltali 2001 til 2010. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir aðeins 11 og er það 9 dögum færra en að meðallagi 1961 til 1990 og 3 dögum færra en að meðaltali 2001 til 2010.