Tíðarfar í janúar 2011
Stutt yfirlit
Hlýtt var í janúar. Mánuðurinn var þó ekki alveg jafnhlýr og í fyrra. Meðalhiti var á bilinu 1,1 til 2,5 stigum ofan meðallags. Fremur þurrt var um sunnan- og suðaustanvert landið en annars var úrkoma í ríflegu meðallagi. Meðalvindhraði var meiri en í janúar undanfarin ár og urðu nokkrar fokskemmdir í norðanveðri snemma í mánuðinum. Talsvert var um samgöngutruflanir um landið norðan- og austanvert framan af mánuðinum.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík var 1,6 stig og er það 2,1 stigi ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 0,4 stig, eða 2,5 stigum ofan meðallags, og á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 1,2 stig. Meðalhiti og vik fleiri stöðva má sjá í töflu.
Tafla. Meðalhiti (°C) og hitavik í janúar 2011 (miðað er við 1961 til 1990).
stöð | hiti | vik | röð | af |
Reykjavík | 1,6 | 2,1 | 19 | 141 |
Stykkishólmur | 1,0 | 2,3 | 20 til 21 | 166 |
Bolungarvík | 0,5 | 1,6 | 27 | 114 |
Akureyri | 0,4 | 2,5 | 22 | 130 |
Egilsstaðir | -0,6 | 1,9 | 18 | 57 |
Dalatangi | 2,0 | 2,2 | 22 | 73 |
Teigarhorn | 1,3 | 1,5 | 40 | 139 |
Höfn í Hornaf. | 1,2 | 1,1 | ||
Stórhöfði | 2,8 | 1,5 | 28 | 134 |
Hveravellir | -4,3 | 2,4 | 11 | 46 |
Hæsti hiti í mánuðinum mældist í Bjarnarey þann 23., 13,8 stig, en lægsti hitinn mældist á Brúarjökli þann 10., -20,6 stig. Lægstur hiti í byggð mældist í Svartárkoti þann 9., -18,6 stig. Á mönnuðu stöðvunum var mesti hámarkshiti 12,6 stig og mældist hann á Sauðanesvita þann 23. Lægsti lágmarkshiti á mannaðri stöð mældist -15,9 stig þann 6. á Grímsstöðum á Fjöllum.
Hæstur varð meðalhitinn í mánuðinum í Surtsey, 3,9 stig og því næst í Vestmannaeyjabæ, 3,3 stig. Lægstur varð meðalhitinn í Sandbúðum, -5,7 stig. Lægstur í byggð varð meðalhitinn í Möðrudal, -3,1 stig.
Úrkoma
Fremur þurrt var um landið sunnan- og suðaustanvert. Úrkoma mældist 61,2 mm í Reykjavík og er það 81% meðalúrkomu. Úrkoma í Reykjavík hefur mælst aðeins 563 mm síðustu 12 mánuði. Á Akureyri mældist úrkoman 64,4 mm og er það um 17% umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 68,3 mm og er það aðeins rúmur helmingur meðalúrkomu þar.
Sólskinsstundir
Sólskinsstundir mældust aðeins 15,9 í Reykjavík, 12 stundum færri en í meðalári. Á Akureyri mældust þær 2,1 en að jafnaði eru sólskinsstundir á Akureyri aðeins 7 í janúar.
Vindhraði og loftþrýstingur
Vindhraði var vel yfir meðallagi síðustu 15 ára og hefur ekki verið jafnmikill í janúar síðan 1995. Foktjón varð í norðanveðri sem gekk yfir þann 5. til 7. Járnplötur losnuðu á húsum víða um landið og bátar hreyfðust í höfnum. Tjón varð þó lítið.
Loftþrýstingur í Reykjavík var 1006,5 hPa og er það 5,8 hPa yfir meðallagi.
Snjór
Mjög snjólétt var sunnanlands og alhvítir dagar í Reykjavík aðeins tveir. Það er 10 dögum færra en að meðallagi. Meiri snjór var fyrir norðan og olli nokkrum erfiðleikum fyrir miðjan mánuð, m.a. féllu stór snjóflóð á nokkrum stöðum þar og á Vestfjörðum. Samgöngur lömuðust oftar en einu sinni fyrri hluta mánaðarins fyrir norðan og austan. Alhvítir dagar á Akureyri urðu 20, einum degi færri en í meðalárferði. Krapaflóð féllu í Fáskrúðsfirði í asahláku þann 19. Jakahlaup í Fnjóská lokaði vegi um Dalsmynni þann 23.