Fréttir
sólsetur
Sólarlag í Reykjavík 4. janúar 2011 kl. 17.31.

Tíðarfar í janúar 2011

Stutt yfirlit

1.2.2011

Hlýtt var í janúar. Mánuðurinn var þó ekki alveg jafnhlýr og í fyrra. Meðalhiti var á bilinu 1,1 til 2,5 stigum ofan meðallags. Fremur þurrt var um sunnan- og suðaustanvert landið en annars var úrkoma í ríflegu meðallagi. Meðalvindhraði var meiri en í janúar undanfarin ár og urðu nokkrar fokskemmdir í norðanveðri snemma í mánuðinum. Talsvert var um samgöngutruflanir um landið norðan- og austanvert framan af mánuðinum.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 1,6 stig og er það 2,1 stigi ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 0,4 stig, eða 2,5 stigum ofan meðallags, og á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 1,2 stig. Meðalhiti og vik fleiri stöðva má sjá í töflu.

Tafla. Meðalhiti (°C) og hitavik í janúar 2011 (miðað er við 1961 til 1990).

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 1,6 2,1 19 141
Stykkishólmur 1,0 2,3 20 til 21 166
Bolungarvík 0,5 1,6 27 114
Akureyri 0,4 2,5 22 130
Egilsstaðir -0,6 1,9 18 57
Dalatangi 2,0 2,2 22 73
Teigarhorn 1,3 1,5 40 139
Höfn í Hornaf. 1,2 1,1
Stórhöfði 2,8 1,5 28 134
Hveravellir -4,3 2,4 11 46


Hæsti hiti í mánuðinum mældist í Bjarnarey þann 23., 13,8 stig, en lægsti hitinn mældist á Brúarjökli þann 10., -20,6 stig. Lægstur hiti í byggð mældist í Svartárkoti þann 9., -18,6 stig. Á mönnuðu stöðvunum var mesti hámarkshiti 12,6 stig og mældist hann á Sauðanesvita þann 23. Lægsti lágmarkshiti á mannaðri stöð mældist -15,9 stig þann 6. á Grímsstöðum á Fjöllum.

Hæstur varð meðalhitinn í mánuðinum í Surtsey, 3,9 stig og því næst í Vestmannaeyjabæ, 3,3 stig. Lægstur varð meðalhitinn í Sandbúðum, -5,7 stig. Lægstur í byggð varð meðalhitinn í Möðrudal, -3,1 stig.

Úrkoma

Fremur þurrt var um landið sunnan- og suðaustanvert. Úrkoma mældist 61,2 mm í Reykjavík og er það 81% meðalúrkomu. Úrkoma í Reykjavík hefur mælst aðeins 563 mm síðustu 12 mánuði. Á Akureyri mældist úrkoman 64,4 mm og er það um 17% umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 68,3 mm og er það aðeins rúmur helmingur meðalúrkomu þar.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir mældust aðeins 15,9 í Reykjavík, 12 stundum færri en í meðalári. Á Akureyri mældust þær 2,1 en að jafnaði eru sólskinsstundir á Akureyri aðeins 7 í janúar.

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði var vel yfir meðallagi síðustu 15 ára og hefur ekki verið jafnmikill í janúar síðan 1995. Foktjón varð í norðanveðri sem gekk yfir þann 5. til 7. Járnplötur losnuðu á húsum víða um landið og bátar hreyfðust í höfnum. Tjón varð þó lítið.

Loftþrýstingur í Reykjavík var 1006,5 hPa og er það 5,8 hPa yfir meðallagi.

Krapahrönn í Fnjóská
SkBr_Fnjoskadalur_leysingar_083
Krapahrönn eftir leysingar í Fnjóská. Myndin er tekin 24. janúar, skammt sunnan við Skarð í Dalsmynni. Ljósmynd: Skafti Brynjólfsson, NÍ, Akureyri.

Snjór

Mjög snjólétt var sunnanlands og alhvítir dagar í Reykjavík aðeins tveir. Það er 10 dögum færra en að meðallagi. Meiri snjór var fyrir norðan og olli nokkrum erfiðleikum fyrir miðjan mánuð, m.a. féllu stór snjóflóð á nokkrum stöðum þar og á Vestfjörðum. Samgöngur lömuðust oftar en einu sinni fyrri hluta mánaðarins fyrir norðan og austan. Alhvítir dagar á Akureyri urðu 20, einum degi færri en í meðalárferði. Krapaflóð féllu í Fáskrúðsfirði í asahláku þann 19. Jakahlaup í Fnjóská lokaði vegi um Dalsmynni þann 23.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica