Jarðskjálftar á Íslandi í desember 2010
Í desembermánuði mældust 1778 skjálftar undir landinu og hafsvæðinu í kringum Ísland. Stærsti skjálftinn varð norðan við Grímsey, stærð Ml 3,4. Mikið frost var í mánuðinum og eitthvað af smáskjálftunum, sem staðsettir hafa verið, gætu verið frostbrestir.
Mest var virknin við Kleifarvatn. Þar mældist tæpur þriðjungur þeirra jarðskjálfta sem mældust í mánuðinum, eða 548 skjálftar, þar af 15 við Gullbringu austan við vatnið. Stærsti skjálftinn á svæðinu mældist Ml 3,0. Sjö smáskjálftar mældust vestar á Reykjanesskaga, sá stærsti, stærð Ml 1,6, átti upptök rétt austan við Grindavík. Á Reykjaneshrygg mældust átta jarðskjálftar um 25 - 75 kílómetra út af Reykjanestá og mældist sá stærsti Ml 2,6. Fjórir skjálftar mældust vestur af Vífilsfelli og nokkrir smáskjálftar við Bláfjöll og Heiðina há.
Í Ölfusi og við Hengil mældust 147 skjálftar, sá stærsti stærð Ml 2. Flestir áttu skjálftarnir upptök á Krosssprungunni, við Hjallahverfið og við Þrengslaveg, en einnig mældust skjálftar undir Ingólfsfjalli. Rétt fyrir miðnætti þann 19. desember mældust sex skjálftar á nokkrum mínútum við Nesjavelli, sá stærsti Ml 1,6. Á gamlársdagsmorgun mældist þar einn skjálfti til viðbótar. Við Húsmúla mældust 11 skjálftar, fjórir þann 1. desember á milli kl. 1:45 og 2:30, einn 9. desember og sex þann 16. á tímabilinu 12:16 til 13:48, allir undir Ml 1 að stærð. Nokkrir skjálftar mældust við Ölkelduháls.
Á Suðurlandsundirlendi mældust 27 smáskjálftar, sá stærsti Ml 1,3. Virknin var dreifð um allt svæðið en þó einna flestir á Hestvatnssprungunni frá árinu 2000.
Þann 5. desember hófst jarðskjálftahrina við Tvídægru í Borgarfirði og mældust þann dag tæplega 60 jarðskjálftar. Jarðskjálftahrinan hélt áfram fram til 10. desember og þá varð skjálfti að stærð 2,7 sem var stærsti skjálftinn í hrinunni. Í og við sunnanverðan Langjökul mældust 14 jarðskjálftar á stærðarbilinu 0,7 til 1,5. Um helmingur þeirra átti upptök við Sandvatn. Við sunnanvert Blöndulón voru staðsettir fimm jarðskjálftar og var stærsti skjálftinn 2,5 og mældist á gamlársdag.
Í Vatnajökli og næsta nágrenni mældust 164 jarðskjálftar, þar af rúmlega eitt hundrað í Bárðarbungu og við Kistufell. Stærstu skjálftarnir urðu við Kistufell á gamlársdag en þá mældust tveir jarðskjálftar um Ml 3,2. Tólf skjálftar mældust á Lokahrygg, austan við Hamarinn og tæplega 30 skjálftar við Grímsvötn, þar af um tugur sunnan við vötnin. Fimm skjálftar mældust við Vonarskarð og fimm í Kverkfjöllum.
Rúmlega 300 skjálftar mældust í gosbeltinu norðan Vatnajökuls, þar af þrír í nágrenni Þeistareykja og sex á Kröflusvæðinu. Um 200 skjálftar mældust í nágrenni Herðubreiðartagla, flestir í fyrrihluta mánaðarins, og um 35 skjálftar austan til í Dyngjufjöllum. Stærstu skjálftarnir mældust um 2,7 að stærð.
Um tuttugu skjálftar mældust miðja vegu milli Herðubreiðar og Herðubreiðarlinda, á tímabilinu frá 20. til 28. desember. Fjórtán skjálftar mældust norðan Upptyppinga.
Undir Mýrdalsjökli mældust um 120 jarðskjálftar. Tæplega 100 þeirra áttu upptök undir Goðabungu, þrír voru undir Sandfellsjökli og flestir hinna undir Kötluöskjunni. Stærsti skjálftinn undir Mýrdalsjökli var við Goðabungu, 2,2 að stærð. Undir Eyjafjallajökli mældust 18 jarðskjálftar og voru þeir allir minni en 0 að stærð að undanteknum einum sem var um 1 að stærð. Á Torfajökulssvæðinu mældust 12 jarðskjálftar og sá stærsti mældist Ml 1,3.
Á Norðurlandi mældust um 320 jarðskjálftar. Mesta virknin var austan Grímseyjar en þar mældust rúmlega 170 skjálftar. Stærsti skjálftinn, Ml 3,4, mældist klukkan 9 þann 16. desember, um 12 kílómetrum norðnorðaustur af eyjunni. Skjálftahrina hófst við Flatey á Skjálfanda laust fyrir klukkan þrjú aðfaranótt 15. desember og stóð hún fram eftir morgni þess dags. Tæpur tugur smáskjálfta var staðsettur á svæðunum við Kröflu og Þeistareyki og einn undir Skjálftavatni í Kelduhverfi.