Fréttir
línurit
Rennsli Jökulsár á Fjöllum frá 1. september til 31. ágúst. Vatnsárið 2009/2010 er svört lína en fjögur eldri samanburðarár eru í lit.
1 2

Aska jók jökulbráð

Viss þykkt ösku jók jökulbráð en meiri þykkt einangraði

7.1.2011

Vatnsárið er skilgreint frá 1. september til 31. ágúst ár hvert en síðla árs fer fram túlkun gagna.

Það sem einkennir rennsli vatnsfalla á vatnsárinu 2009/2010 er annars vegar hin mikla jökulbráð á svæðum þar sem aska frá Eyjafjallajökulsgosinu lá í hæfilegri þykkt á jöklum landsins og hins vegar lítið rennsli í drag- og lindám vegna lítillar úrkomu, einkum á Vesturlandi.

Á meðfylgjandi línuritum eru gefin dæmi um þetta tvennt. Nýliðið vatnsár er svört lína en fjögur eldri vatnsár eru litaðar línur (samanburðarár).

Á fyrra línuritinu sést að rennsli Jökulsár á Fjöllum við Grímsstaði var mjög nærri meðallagi þar til í júní þegar jökulbráðin hófst. Hlýtt var í veðri og sólríkt. Rennslið fór langt fram úr meðallagi og vatnsmagnið sem rann fram í júní, júlí og ágúst varð 1,4 km3 meira en á sama tíma í meðalári. Það svarar til umframbráðnunar sem nemur 1,2 m þykks íss yfir allt vatnasvið árinnar á jökli, en heildarbráðnun íssins á tímabilinu nemur 2 m. Umframbráðnunin samsvarar 3/4 af rými Hálslóns. Sjá má að vorleysingar af hálendinu hefjast í apríl og maí, en síðan hefst jökulbráðnunin í júní.

Rennsli Markarfljóts var ekki mikið á jökulbráðnunartímanum (sjá fróðleiksgrein). Líklegt er að þykk aska hafi einangrað vatnasviðið á norðvestanverðum Mýrdalsjökli en úrkoma kemur kröftuglega fram í Markarfljóti.

Á seinna línuritinu sjást áhrif lítillar úrkomu:

Haffjarðará er dragá á Vesturlandi. Rennslið síðsumars í þurrviðrinu á Vesturlandi var lítið. Samanburðarárin eru líka rýr nema sumarið 2005 (rauð lína). Svarta línan (2010) sýnir að varla hefur komið skúr á vatnasviði árinnar síðastliðið sumar.

Nánar er fjallað um rennsli á öðrum landssvæðum í fróðleiksgrein þar sem fleiri mælingar eru birtar. Þar er einnig að finna Íslandskort sem sýnir þykktardreifingu öskunnar frá Eyjafjallajökli.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica