Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í nóvember 2010
Jarðskjálftar á Íslandi í nóvember 2010

Jarðskjálftar á Íslandi í nóvember 2010

8.12.2010

Tæplega 1300 jarðskjálftar voru staðsettir á landinu eða við landið í nóvember. Mest var skjálftavirknin við Kleifarvatn. Skjálftar mælast enn sunnan undir Blöndulóni og við Esjufjöll. Stærsti jarðskjálftinn sem var staðsettur í mánuðinum var undir Lokahrygg í Vatnajökli. Hann var 3,5 stig.

Á annan tug skjálfta mældist úti á Reykjaneshrygg í nóvember, allir innan við þrír að stærð. Fjöldi jarðskjálfta, yfir 400, mældist sunnan og vestan við Kleifarvatn. Flestir, hátt í hundrað, urðu dagana 9. og 30. nóvember. Stærsti skjálftinn, 2,7 stig, varð rétt eftir miðnætti 11. nóvember og fannst á höfuðborgarsvæðinu. Nokkrir smáskjálftar mældust við Fagradalsfjall, Grindavík og Reykjanestá.

Smáskjálftar mældust af og til á Hengilssvæðinu og í Ölfusi og Flóa. Skjálfti með upptök rétt vestur af Ölkelduhálsi fannst í Hveragerði 16. nóvember, en hann var aðeins 1,8 að stærð. Fáir skjálftar voru staðsettir á Suðurlandsundirlendinu, en smáskjálftar mældust af og til á Holta- og Hestvatnssprungum og nokkrir við Vatnafjöll.

Að morgni þriðjudagsins 26. október hófst skjálftahrina við suðurenda Blöndulóns. Virkni hélt áfram á svæðinu í nóvember, og mældust skjálftar þar af og til allan mánuðinn, um 50 í allt. Stærstu skjálftarnir voru tæplega þrjú stig. Nokkrir stakir skjálftar mældust annars staðar í vestara gosbeltinu, við Þórisjökul, Ok, undir Geitlandsjökli og við Hagafell.

Um 90 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, langflestir undir vestanverðum jöklinum við Goðabungu. Stærstu skjálftarnir voru um 2,5 stig. Nokkrir skjálftanna voru staðsettir undir Sandfellsjökli, austan öskjunnar. Nokkrir smáskjálftar mældust undir Eyjafjallajökli og á þriðja tug á Torfajökulssvæðinu.

Talsverð smáskjálftavirkni var undir Grímsvötnum samfara jökulhlaupi úr vötnunum sem hófst í lok október. Yfir 50 skjálftar voru staðsettir á svæðinu í nóvember, sá stærsti 2,4 stig. Enn mælast jarðskjálftar undir Esjufjöllum í Vatnajökli, en skjálftahrina hófst þar 19. október. Stærsti skjálftinn sem mældist þar í nóvember var 3,1 stig. Jarðskjálfti 3,5 að stærð átti upptök undir Lokahrygg, austan við Hamarinn, 25. nóvember. Hann var stærsti skjálftinn sem mældist í nóvember. Skjálftar mældust einnig við Bárðarbungu, Kistufell og Kverkfjöll.

Norðan Vatnajökuls var mesta skjálftavirknin við Herðubreið síðustu vikuna í nóvember. Þar mældust um 80 skjálftar og af þeim voru 52 í skjálftarunu þann 28. nóvember. Stærstu skjálftarnir í rununni voru um tvö stig. Um 20 smáskjálftar mældust við Öskju og nokkrir tugir við Herðubreiðartögl. Einnig var smáskjálftavirkni við Hlaupfell, þar sem um 40 skjálftar voru staðsettir.

Rúmlega tugur smáskjálfta var staðsettur bæði á Kröflu- og Þeistareykjasvæði, allir undir tveimur að stærð. Flestir jarðskjálftar norðan við land í nóvember voru staðsettir við Grímsey eða um 80, sá stærsti rúmlega þrjú stig. Í Öxarfirði mældust um 40 jarðskjálftar, stærsti 2,5 stig. Einnig mældust skjálftar úti fyrir mynni Eyjafjarðar og við Flatey.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica