Afmælisfundur Veðurstofu Íslands
Veðurstofan 90 ára
Í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofu Íslands er boðað til afmælisfundar á Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2, hinn 14. desember 2010.
Fundurinn hefst kl. 8:45 og honum lýkur með móttöku sem hefst um kl. 16:30.
Fyrir hádegið verða loftslagsrannsóknir ræddar. Fjallað verður um áhrif loftslagsbreytinga á jökla, vatnsafl og virkjanir, loftslagsreikninga og vindorkuverkefni.
Eftir léttan hádegisverð verður umfjöllunarefnið eldgosavöktun og eldgosarannsóknir. Fjallað verður um hlutverk Veðurstofu Íslands vegna eldsumbrotanna í Eyjafjallajökli, vöktun á jarðvá með tilliti til eldgosa, flóðavöktun, jökulhlaup, gosmökk og öskudreifingu.
Fundurinn hefst með ávarpi umhverfisráðherra. Því næst ávarpar Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofunnar, fundinn og stiklar á stóru í 90 ára sögu stofnunarinnar. Eftir hádegið ávarpar samgönguráðherra fundinn og að erindum loknum tekur Sveinbjörn Björnsson prófessor saman niðurstöður fundarins. Að loknum fundi verður móttaka með léttum veitingum.
Dagskrá afmælisfundarins með heitum erinda og fyrirlesara er í meðfylgjandi skjali (pdf 0,6 Mb).
Allir eru velkomnir og eru gestir beðnir að skrá sig með því að senda tölvupóst á netfangið afmaeli (hja) vedur.is eða hringja í síma 522 6000.